148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú förum við aftur út í heimspekilegar vangaveltur sem ég velti fyrir mér hvernig maður eigi að nálgast nákvæmlega. Ekki að það sé neitt að því. Eins og ég sagði áðan er ég mikið fyrir þær.

Eitt svarið er nei. Ég þarf ekkert að sætta mig við það. Ég þarf ekkert að vera kátur með það, ég þarf ekki einu sinni að vera kurteis. Ég kýs að vera mátulega kurteis, þótt ég segi samt heiðarlega frá því sem mér liggur á hjarta og því sem mér finnst augljóst, rétt eins og ég gerði í ræðu minni um skoðanir mínar á þessu fráleita ákvæði í stjórnarskrá. Það er ekkert dónalegt við það.

En eins og venjulega kemur fyrir að einstaka einstaklingar sem vilja hafa þetta ákvæði leggi sig fram um að vera móðgaðir þegar einhver dirfist hafa þá skoðun að hugsanlega sé hin evangelíska lúterska kirkja ekki endilega það sem við öll aðhyllumst og upplifa það, að því er virðist, sem ægilega ókurteisi, sem það er ekki. En gott og vel. Ég skal alveg taka því að mér verður stundum heitt í hamsi þegar kemur að þessu máli enda er um grundvallarréttindi borgaranna að ræða. Mér finnst það bara við hæfi. Menn hafa nú barist og lagt líf sitt að veði fyrir slík réttindi.

Þannig að eitt svarið er nei, ég þarf ekki að sætta mig við það. Ég má vera brjálaður yfir því. Ég má hafa skoðanir á því, má leggja fram frumvörp til að breyta því, má hafa mínar skoðanir og má gera það sem mér sýnist í þeim efnum.

Hitt er síðan að á ákveðinn hátt er svarið já, ég þarf að sætta mig að sú sé staðan þar til því verður breytt. En það má hv. þingmaður vita að ég mun leggja mig fram um að fá þessu breytt því að ég held að þetta sé slíkt atriði að það þarfnist umræðu. Og ég hef sagt það við skoðanasystkini mín sem aðhyllast það að taka burt eða skipta út 62. gr. stjórnarskrárinnar, um þetta ríkiskirkjufyrirbæri, að það þarf að takast áður en kristnir verða í minni hluta vegna þess að það er mikilvægt að það sé komið á hreint að við eigum ekki að hafa ríkiskirkjur eða ríkisstofnanir byggðar á því hver sé í meiri hluta. Það er ómálefnalegt. Þess vegna verðum við að aðskilja ríki og kirkju (Forseti hringir.) áður en kristni verður í minni hluta. Ég vil ekki losna við ríkiskirkjuna í gegnum það ferli að afkristna þjóðina. (Forseti hringir.) Það er ekki markmiðið. Þetta snýst um samband ríkis og kirkju, ekki um kristni.