148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

innbrot á höfuðborgarsvæðinu.

211. mál
[17:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil geta þess að ég hef líka átt fundi og samtöl við sveitarstjórnarfólk í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og hef hlustað eftir áhyggjum þeirra í þessum efnum. Lögreglan og sveitarstjórnir hafa átt gott samstarf, m.a. við uppsetningu eftirlitsmyndavéla sem sveitarfélögin hafa kallað mjög eftir. Ég tel að það samstarf eigi að þróa áfram og rækta í ríkari mæli og full ástæða til þess, og alveg ástæðulaust að hlusta ekki eftir þeim óskum frá sveitarstjórnunum, hafi menn þær óskir uppi, að teknu tilliti til ýmissa persónuverndarsjónarmiða og annars sem að sjálfsögðu þarf að líta til við uppsetningu slíkra myndavéla.

Slíkar myndavélar og ákall um þær sýna líka svolítið breytt umhverfi og nýja möguleika og tækifæri til að takast á við þann vanda sem þessi glæpastarfsemi er. Við eigum að taka tækninni fagnandi og nýta hana þegar því verður við komið.

Eins og kom fram í umræðu í síðustu viku um lögreglumálin hefur verulega aukið fé verið veitt til löggæslumála á undanförnum árum. Við ætlum að halda áfram að gera það. Ég legg mikla áherslu á að það verði í þeim tilgangi og með það að markmiði að fjölga hinum almennu lögreglumönnum, gera lögregluna sýnilegri eins og hægt er, taka til endurskoðunar bílakost lögreglunnar með það að markmiði að reyna að finna leiðir til að gera hann hagkvæmari svo hægt verði að fjölga lögreglubifreiðum sem eru auðvitað helsta tæki lögreglunnar til að sinna öllum úthverfunum, íbúðarhverfunum, sinna þar reglubundnu eftirliti. (Forseti hringir.) Ég fagna þeim áhuga sem hv. þingmenn hafa sýnt í þessum efnum.