148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Síðast í störfum þingsins fjallaði ég örstutt um geðheilbrigðismál í fangelsum og mér var þá svolítið niðri fyrir vegna þess að ég hafði kynnst í mjög stuttan tíma herramanni sem síðan svipti sig lífi á Kvíabryggju daginn eftir að ég hafði heimsótt hann.

Mig langar til að nefna málefnið aftur. Vegna þess að í þeirri ræðu var ég að reyna að höfða til samvisku fólks og væntumþykju með sínum systkinum af þeirri tegund sem við erum og búa í fangelsi af einhverjum ástæðum.

En mig langar líka til að höfða til almennrar skynsemi þegar kemur að geðheilbrigðismálum í fangelsum. Fangar eiga ýmislegt sammerkt. Þetta er ekki þverskurður af þjóðinni. Greinilega ekki. Mjög einkennandi vandamál fyrir þennan þjóðfélagshóp eru hlutir eins og ADHD, vímuefnaneysla, áföll í æsku, önnur áföll á fullorðinsaldri o.s.frv. Afskaplega stórir þættir í geðheilbrigðisþjónustu.

Þeir einstaklingar munu fyrr eða síðar koma út úr fangelsi. Þá verða þeir aftur svokallaðir þjóðfélagsþegnar á meðal okkar. Viljum við þá ekki, sem aldrei höfum farið í fangelsi og förum sennilega aldrei, að þeir einstaklingar hafi notið góðrar geðheilbrigðisþjónustu öryggis okkar vegna? Er það ekki langskynsamlegast af okkur að fjármagna geðheilbrigðisþjónustu og heilbrigðisþjónustu almennt í fangelsum þannig að þegar fólk kemur út hafi það fengið tækifæri til að vinna úr sínum málum, hver svo sem þau eru? Ég myndi segja já. Og til að svara þeirri spurningu játandi þarf enga samkennd, samúð eða skilning á stöðu fanga, þótt ég vilji auðvitað höfða til þeirra góðu kennda líka og hafi reyndar gert hér í síðustu ræðu minni í störfum þingsins. En það er líka hægt að nálgast þetta algerlega blákalt. Ég hugsa jafnvel fjárhagslega. Og sjá að eina vitið er að efla heilbrigðisþjónustu, sér í lagi geðheilbrigðisþjónustu, í fangelsum landsins.