148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka til umfjöllunar málaflokk sem nú mætti helst leita undir þeirri deild ef til væri í þinginu sem kallast annars staðar óskilamunir. Þarna á ég að sjálfsögðu við samgöngumálin í landinu.

Förum aðeins yfir atburðarásina. Það fyrsta sem ber að nefna er að vegakerfið í landinu er komið að fótum fram. Það er varla til sá vegarkafli sem ekki öskrar á viðhald eða enduruppbyggingu. Í kosningabaráttunni fyrir fjórum mánuðum síðan lofuðu allir flokkar að setja vegamál á oddinn kæmust þeir til valda. Í stjórnarsáttmálanum lofar ríkisstjórnin hraðri uppbyggingu í vegamálum.

Við afgreiðslu fjárlaga kemur í ljós að gildandi samgönguáætlun er vanfjármögnuð um 7 milljarða og því í raun marklítið plagg. Hæstv. samgönguráðherra tilkynnir í desember 2017 að stefnt sé að því að leggja fram nýja samgönguáætlun á nýju ári. Nýverið hefur hæstv. samgönguráðherra upplýst að hann hyggist ekki leggja fram samgönguáætlun fyrr en með haustinu.

Hv. þm. Jón Gunnarsson kom hér upp áðan og í raun fórnaði hann höndum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í málaflokknum. Hvað er að gerast? Á mannamáli heitir þetta að stjórnin er með allt niðrum sig í samgöngumálum. Vegarkaflar eins og Reykjanesbraut úr Hafnarfirði að flugstöðinni, öruggari Grindavíkurvegur, vegarkaflinn milli Selfoss og Hveragerðis, ný Ölfusárbrú, þjóðvegur 1 um Kjalarnes, einbreiðar brýr á leiðinni til Hornafjarðar þar sem þær eru næstum tuttugu og verið er að vinna að tveimur á þessu ári. Hversu lengi verða stjórnvöld að ganga í öll þessi verk? Hversu lengi eiga ökumenn í vanbúnu vegakerfi að bíða? Hvenær fáum við að sjá áætlun um að hefja öll stóru verkin?