148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þeir eru til sem lítið gera úr alvarleika loftslagsbreytinga og sá efa oft án nægrar þekkingar um að mannkyn hafi nokkuð með þær að gera. Náttúran leiki sér bara að okkur. Þetta kristallaðist mjög vel í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins núna um helgina þar sem höfundurinn setti alltaf orðið „losun“ í gæsalappir. Þið vitið kannski hver þetta er.

Sem betur fer taka aðrir til hendinni og framkvæma í þágu raunveruleikans og framtíðarhagsmuna. Af 74 sveitarfélögum hafa 14 sett sér umhverfis- og auðlindastefnu og tvö sett sér bæði loftslags og umhverfisstefnu, þ.e. Reykjavík og Hornafjörður. Grindavík reið á vaðið fyrir tæpum áratug með umhverfis- og auðlindastefnu.

Stefnumótun af þessu tagi er til mikillar fyrirmyndar og nú hefur hið nýja sveitarfélag, Sandgerði – Garður, hafið vinnu við umhverfis- og loftslagsstefnu með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og stefnu ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland 2040.

Herra forseti. Það er meira að segja fleira gott að gerast. Samband sveitarfélaga á Suðurlandi hefur unnið að tillögu um orkunýtingarstefnu sveitarfélaganna á sínu starfssvæði. Hún á að gilda fyrir 2017–2030. Hún tekur bæði yfir orkuframleiðslu og orkuflutning. Þetta er auðvitað til fyrirmyndar líka.

Ég ætla að hvetja hv. þingmenn til að stuðla að svona framsýnni vinnu hver í sínu kjördæmi, því að það veitir ekki af. Svo sannarlega, það veitir ekki af.