148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:55]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að ég held að hv. 1. flutningsmaður og þeir sem flytja þetta frumvarp með henni hafi sjálfsagt ekki átt von á því að frumvarpið myndi valda slíkum úlfaþyt í íslensku samfélagi eða á alþjóðavettvangi. Ég ber virðingu fyrir hv. flutningsmanni, með hvaða hætti hún hefur haldið á þessu máli og gert það af yfirvegun og skynsemi.

Eins og fram hefur komið í umræðunum í dag og reyndar í framsögu hv. 1. flutningsmanns á sínum tíma er málið ekki einfalt og vekur upp mjög sterkar tilfinningar hjá fólki. Mín skoðun er sú að velferð barnsins hljóti alltaf að vera í fyrsta sæti. Ég held að það geti aldrei verið réttmætt að trú standi í vegi fyrir velferð barns.

Við höfum verið að ræða þetta út frá margvíslegu sjónarhorni. Við höfum verið að ræða þetta út frá læknisfræðilegum viðmiðum um réttmæti þess að gera óafturkræfa aðgerð og hvað hún hefur í för með sér, hversu alvarlegt þetta inngrip er, hversu sársaukafullt og þar fram eftir götunum. Síðan blandast trúmál óhjákvæmilega inn í þetta. Sumir vilja tala um trúfrelsi og frelsi safnaða eða trúarhópa til þess að framfylgja ritúölum sínum, sem eru af margvíslegu tagi.

Ég held að við eigum að fara mjög varlega í að skilgreina og leiðbeina fólki um það hverju það trúir og hverju það trúir ekki. Ég held að við eigum að varast að fara þangað og fara að skilgreina og úrbeina trúarskoðanir fólks með einhverjum hætti og segja hvað er rétt og hvað er rangt í því í sjálfu sér.

Það breytir ekki því að ýmsir trúarhópar, og flestir held ég, það felst í eðli máls, trúa því að það sem þeir trúa sé hið eina rétta. Þeir vilja verja rétt sin til þess að trúa því sem þeir trúa. Það vekur athygli að þegar þetta mál komst á dagskrá í umræðu virtust talsmenn trúarhópa og trúarsamfélaga taka það mjög til sín, og þá alls ekki bara þeir þar sem þessi siður ríkir sem við ræðum hér um, umskurn sveinbarna, heldur risu upp aðrir trúarleiðtogar, bæði innlendir og erlendir og vöruðu mjög eindregið við því að Alþingi tæki þetta mál til skoðunar og afgreiðslu, þar á meðal biskup Íslands, sem fer fyrir þjóðkirkjunni, ríkiskirkjunni, sem 70–80% Íslendinga tilheyra. Hún taldi að ekki væri skynsamlegt að ráðast í þessa vegferð. Það er því óhjákvæmilegt að þessir hlutir blandist saman með einhverjum hætti.

Síðan hefur verið umræða hér um hvort umskurn hefði í för með sér einhverja kosti. Hér hafa menn vitnað á víxl til samtaka heilbrigðisstarfsfólks á Íslandi, sem eru mjög einhuga um að þetta sé ekki réttlætanleg aðgerð. Einnig hefur verið vitnað til samtaka heilbrigðisstarfsfólks, eða kannski fyrst og fremst lækna, á Vesturlöndum, í Evrópu, um að þetta sé ekki skynsamleg aðgerð. Svo hafa menn aftur vísað til ummæla lækna, einkum í Bandaríkjunum, um að þetta sé skynsamlegt og dragi úr hættu á tilteknum sjúkdómum. Áðan var bent á að Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðlegar heilbrigðisstofnanir telji að þetta hafi marga kosti, skulum við orða það.

Maður spyr sig óneitanlega þegar svona misvísandi skoðanir koma frá heilbrigðisstéttum víða um veröld hvort hugsanlegt sé að þar ráði einhverju um hver er siður í hverju landi og hugsanlega hverrar trúar viðkomandi heilbrigðisstarfsmenn eru. Það er því óhjákvæmilegt að þetta rekist saman.

Auðvitað erum við líka að tala um grundvallarréttindi barnsins, að ekki sé gripið til neinna aðgerða eða íhlutunar í líkama þess, í þessu tilviki erum við að tala um kynfæri drengja og einnig umskurð kvenna. Það hlýtur að vera meginmarkmið okkar og ég held að við séum flest þeirrar skoðunar að slíkt inngrip sé ekki réttlætanlegt.

Þetta hefur líka aðeins tengst umræðu um aðgerðir á einstaklingum sem fæðast með óljós kyneinkenni, intersex börn. Mjög víða hefur fyrsta viðbragð um langa hríð, en það er sjálfsagt að breytast, verið að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til þess að það sé alveg ljóst bókstaflega hvers kyns barnið er. Við vitum að margar slíkar aðgerðir hafa valdið miklum skaða og miklu tjóni, því að það er nú þannig að lífið og líkaminn og líffræðin eru svo sérkennileg að menn sjá ekki allt fyrir. Þannig að það er margt sem getur gerst á síðari stigum sem veldur því að þetta inngrip getur valdið miklu meira tjóni en gagni.

Við erum að fikta í kynfærum. Það er ekki gert af trúarástæðum. Það er að sjálfsögðu gert af góðum hug en stundum hefur það leitt af sér hörmungar.

Hvernig eigum við að takast á við svona mál þegar þau blandast öll saman? Eigum við að fara þá leið sem frumvarpið gerir ráð fyrir og setja þetta í hegningarlög og breyta því þannig að við gerum þessa íhlutun í líf ómálga barna, stúlkna og drengja, refsiverða? Talsvert hefur verið rætt um umskurn kvenna og hvort þetta eru sambærilegar aðgerðir í einhverjum skilningi. Það má hafa um það mörg orð. Í öllum tilvikum er um óafturkræfar aðgerðir að ræða eða inngrip í líkamann.

Umskurn kvenna getur verið með margvíslegum hætti, eins og hér hefur komið fram við umræðuna. En oftar en ekki er tilgangur þeirrar umskurnar að svipta konurnar möguleikum á að njóta kynlífs. Það er markmiðið með þeim, sem er býsna alvarlegt. Markmiðið með umskurn drengja held ég að sé yfirleitt ekki þess háttar.

Ég velti fyrir mér hvort nálgunin sé alveg rétt, að setja þetta með þessum hætti í hegningarlögin. Ég veit það ekki alveg, ég er ekki búinn að móta mér skoðun á því. Ég held í sjálfu sér að það sem fyrir okkur liggur, af því að við teljum okkur vera ríki sem varðveitir og berst fyrir mannréttindum — það eigum við að gera og við gerum það — að mannréttindi geta ekki verið valkvæð. Það hljóta að vera einhver grundvallarprinsipp sem við verðum að fylgja. Og það eigum við að gera.

En samt sem áður, vegna þess hvernig þetta mál kemur fyrir er spurning hvernig við náum sem bestum árangri. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum koma í veg fyrir þetta. Stundum er talað um að refsivöndur sé góður og við tölum gjarnan um refsistefnu eða betrunarstefnu sem snýst þá um að reyna að koma fólki til skilnings á því hvað er rétt og rangt og uppfræða og ræða og koma upplýsingum á framfæri. Ég hugsa að það dygði ekki til í þessu tilviki að við gæfum út einhvers konar handbók um það hvað er rétt og rangt í þessum efnum.

En svo ég ítreki það held ég að við eigum að varast í allri þessari umræðu að sökkva okkur um of ofan í trúarbrögðin sjálf. Ég held að við eigum að reyna að nálgast þetta fullkomlega með þeim hætti að hér sé um inngrip í líf einstaklinga að ræða sem ekki er líðandi. Það fer í bága við grundvallarmannréttindi. Ef menn vilja á síðari stigum ævi sinnar láta umskera sig er spurning hvort það hljóti þá ekki bara að vera heimilt. Við leyfum alls konar aðgerðir að eigin frumkvæði. Sumum finnst fulllangt gengið í því hvað við erum dugleg á Vesturlöndum að breyta líkama okkar með alls konar aðgerðum sem flestir myndu ekki telja bráðnauðsynlegar, en eru engu að síður gerðar. Það verður þá að vera í valdi hvers einstaklings.

Varðandi umræður um hvort við eigum að skilgreina með einhverjum hætti að barn sem er fimm ára, sex ára, tíu ára, geti tekið slíkar ákvarðanir varðandi umskurð sveinbarna sem við erum að tala um, þá er ég ekki þeirrar skoðunar. Ég held að við eigum að miða við hvað er barn að lögum. Við þekkjum að barn er undir áhrifavaldi foreldra sinna og nærsamfélags. Ég held að það yrði aldrei um neinn sjálfstæðan vilja barnsins að ræða í þessu samhengi. Ég tel að ekki sé skynsamlegt að fara þá leið.

En fyrst og fremst segi ég: Óafturkræfar aðgerðir af þessu tagi eigum við ekki að láta líðast á Íslandi. Við þurfum að ræða það vel. Við þurfum að velta fyrir okkur nákvæmlega hvernig við ætlum að koma því fyrir í lögum svo þetta fari sem allra best.

En bara svo ég ítreki það, því að það er viss hætta á því að þetta fari yfir í trúarbragðafarveginn, sem ég tel að við eigum að vera mjög ákveðin í að það geri ekki — ég tek eftir því að hv. flutningsmaður hefur verið mjög einörð í því að tala um þetta mál aðskilið frá trúarbrögðunum. Þannig eigum við að nálgast það. En um leið verðum við að átta okkur á því að þetta varðar engu að síður trú margra. Það er mjög erfitt að segja fólki hverju er rétt eða rangt að trúa.