148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

kostnaður við hjúkrunarheimili og heilbrigðisþjónustu.

140. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Það sem vekur kannski athygli í svörunum og þessum útreikningum ráðuneytisins er í rauninni að menn gefa sér það, eins og ég sé það, að greiðsluþátttökuhluti einstaklings á hjúkrunarheimili sé ekki í sömu hlutföllum og heildarkostnaðurinn af dvölinni á hjúkrunarheimili. Menn reikna sig einhvern veginn niður á það að allt sem einstaklingurinn kynni að þurfa að borga, þ.e. hámarkið eins og hæstv. ráðherra kom inn á, 409 þús. kr., sé allt vegna einhvers annars en heilbrigðisþjónustu. Ég held að í augum þeirra sem búa á hjúkrunarheimilunum þá sé þetta ekki svona, þ.e. þeir líti á það þannig að þeir séu í rauninni að taka þátt í heildarkostnaðinum af dvölinni. Því mætti eins hugsa í þeirra augum, þó að þessi skipting sé til staðar, að með því að þeir geta borgað allt að 40% af heildarkostnaðinum þá séu þeir í rauninni að borga stærri prósentu, stærri hluta, til heilbrigðisþjónustu en ella væri. Ég held að það sé kannski spurningin sem hæstv. ráðherra og ráðuneyti hennar ættu að velta upp.

Ég ímynda mér að minnsta kosti, eins og ég kom aðeins inn á í fyrri ræðu minni, að afar margir líti svo á að það að borga 410 þús. kr. á mánuði fyrir fæði og húsnæði, jafnvel þótt inni á stofnun sé, sé vel í lagt. Ef við skoðum til að mynda hvaða lífeyri við ætlum til eldri borgara á mánuði, sem er töluvert miklu lægra en þessi upphæð, þá sjáum við það að þarna er einhver skekkja sem ég held að væri fróðlegt fyrir ráðuneytið að skoða betur.