148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni.

244. mál
[17:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er við sama heygarðshornið. Það dylst auðvitað engum að heilbrigðisþjónustan, skipulag hennar og viðgangur, stendur nærri almenningi í landinu. Það eru jákvæðar fréttir sem heyrast úr heilsugæslunni í Reykjavík, að betur gangi nú en undanfarin ár, heilbrigðisstarfsfólki sé hlaupið kapp í kinn og það er gott. Kerfinu hefur verið breytt, það hafa verið settir inn hvatar sem m.a. leiða til þessa.

Við eigum afbragðsfagfólk í ýmsum greinum heilbrigðisfræða sem nýtist feikivel í grunnþjónustunni. Það hefur reynslan sýnt. Það á að hagnýta þá fjölbreytilegu þekkingu og þjálfun enn betur. Þjónustan vítt og breitt um landsbyggðina hefur ekki borið sitt barr í mörg ár; eftir hið efnahagslega hrun 2008 fór verulega illa og við höfum ekki náð vopnum okkar úti á landi enn. Það var eldmóði starfsfólks að þakka að ekki fór verr. En landsbyggðin hefur enn ekki náð því að halda uppi þeirri þjónustu sem hún gerði fyrr. Þetta er mikilvægt mál og óðara erum við auðvitað farin að tala um byggðamál, jafnræði íbúa þessa lands.

Ég leyfi mér að leggja fyrir hæstv. ráðherra sex spurningar sem hljóða á þessa leið:

Hvernig hyggst ráðherra vinna að uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar um allt land? Það er stórt spurt.

Og í öðru lagi: Hvernig ætlar ráðherra að tryggja stöður heilsugæslulækna á landsbyggðinni?

Í þriðja lagi: Stendur yfir einhver skipulögð vinna sem miðar að úrbótum í málaflokknum að þessu leyti? Þá á ég við úti á landi.

Í fjórða lagi: Telur ráðherra það ásættanlegt fyrirkomulag að verktakar haldi uppi læknisþjónustu í mörgum byggðarlögum?

Í fimmta lagi: Hvaða áhrif hefur slitrótt heilbrigðisþjónusta á vellíðan og öryggi íbúa á landsbyggðinni og viðhorf þeirra til áframhaldandi búsetu þar? Við erum uggandi um að þessi grunnþáttur hjálpi ekki til að viðhalda farsælli byggð um allt landið.

Í sjötta lagi: Hver eru fagleg og fjárhagsleg áhrif slitróttrar heilbrigðisþjónustu innan heilbrigðiskerfisins þegar á allt er litið?