148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni.

244. mál
[17:26]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hér er enn eitt mikilvæga málið sem við ræðum í dag, sem er vel. En ég held að það sé hvað mikilvægast fyrir okkur núna að skilgreina hvaða heilbrigðisþjónustu við ætlum að veita á landsbyggðinni og á þeim heilbrigðisstofnunum sem þar eru til að við getum áttað okkur á fjárþörfinni og þörfinni á mönnun og öðru slíku.

Það verður líka að tryggja að á svæðum eins og á Suðurlandi og Suðurnesjum, þar sem er fordæmalaus íbúafjölgun, sé hægt að bregðast við því og að heilbrigðiskerfið sé tilbúið til þess. En á sama tíma er á sumum stöðum líka fordæmalaus fjölgun ferðamanna. Vegna tungumálaörðugleika oft og tíðum og vegna þess að þeir hafa ekkert bakland heima í héraði tekur miklu meiri tíma að sinna þeim. Við því þarf að bregðast.

Svo held ég líka að við verðum að athuga hvaða verkefnum er hægt að sinna betur í heimabyggð svo álagið á háskólasjúkrahúsið okkar verði ekki of mikið, t.d. með því að fjölga fæðingarstöðum, efla slysadeildir og fleira.