148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

möguleikar ljósmæðra á að ávísa lyfjum og hjálpartækjum.

268. mál
[17:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mig langar að varpa fram spurningum til heilbrigðisráðherra er varða ljósmæður og rétt þeirra til að ávísa getnaðarvarnalyfjum. Ekki er svo langt síðan að hér var lagt fram frumvarp, og var langt komið í meðförum Alþingis, þar sem þetta var lagt til. Ég held að þetta sé mikið þjóðþrifamál. Á sínum tíma þegar lyfjalögum var breytt — það er nú ekki heldur mjög langt síðan, 2016 held ég — var í umsögn Ljósmæðrafélagsins við það lögð áhersla á að reyna að koma því inn til þess að þurfa ekki að bíða lengur eftir þessu.

Það hefur mjög oft verið rætt og mjög mikið að rýmka þessa löggjöf. Einhvern veginn hefur okkur ekki tekist að klára þetta en á Norðurlöndunum er þetta mjög víða þannig. Það kom líka fram í umsögn embættis landlæknis við lyfjalögin á sínum tíma að í nágrannalöndum okkar, eins og í Svíþjóð, hefðu ljósmæður þennan rétt og engir vankantar væru á því fyrirkomulagi. Það var líka í Hollandi þar sem ljósmæður fengu leyfi 2014 til að skrifa upp á hormónagetnaðarvarnapillu og kopar- og hormónalykkju. Þar þurftu þær að sækja sérstakt vefnámskeið og ýmislegt fleira hefur verið gert erlendis sem hefur gert ljósmæðrum kleift að ávísa þessum lyfjum.

Það er vert að taka fram að menntun okkar ljósmæðra hér á Íslandi er fyllilega sambærileg við menntun í nágrannalöndunum okkar, þannig að við ættum að geta fylgt því fordæmi. Ég held að það mundi verða mikil hagræðing, varðandi ráðgjöf um getnaðarvarnir, að slíkt sé á hendi ljósmæðra. Hér var rætt um heimilislækna og aðra slíka, að létta þyrfti álagi á þeim. Ég held að heilbrigðiskerfið okkar þurfi á því að halda nú frekar en oft áður að við nýtum þekkingu allra þeirra sem við getum, og annarra en lækna, til að koma á aukinni teymisvinnu fyrir sjúklinga og íbúa landsins.

Ljósmæður hafa sagt að þær myndu vilja geta ávísað hormónagetnaðarvörnum, lyfjum til notkunar við heimafæðingar, sýklalyfjum við sýkingum í brjóstum og ýmsum hjálpartækjum sem tengjast konum með sykursýki á meðgöngu. Því langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvert er viðhorf ráðherra til þess að ljósmæður fái þessa heimild, þ.e. að ávísa tilteknum lyfjum, og telur ráðherra að undirbúningur að því að veita ljósmæðrum framangreinda heimild, t.d. námskeiðahald, getið hafist á næstunni? Og ef breyting er talin æskileg, hvenær gæti hún átt sér stað?