148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

möguleikar ljósmæðra á að ávísa lyfjum og hjálpartækjum.

268. mál
[17:43]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að bæta aðeins inn í þessa umræðu. Ég er sammála því að þarna sé hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir að vekja máls á mjög mikilsverðu máli og er algjörlega sammála því að þessar heimildir eigi að vera til staðar. Það þarf hins vegar að vera algjörlega á hreinu að þessir þættir séu teknir inn í menntun hjúkrunarfræðinga, þ.e. að sérstaklega sé farið yfir þetta í grunnnámi þeirra. Lyfjafræði er kennd í grunnnámi í hjúkrunarfræði en ekki í grunnnámi í ljósmæðrafræðum af því að hún er undirgrein hjúkrunarfræði eins og staðan er í dag. Það er mjög mikilvægt að á þessu sé tekið þar og það þarf þá að vera í samráði við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Kannski væri flötur á því svona í fyrsta „instance“ — fyrirgefðu enskuslettuna, herra forseti — að skoða hvort ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hefðu heimild til að endurnýja lyf.