148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

möguleikar ljósmæðra á að ávísa lyfjum og hjálpartækjum.

268. mál
[17:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka góða umræðu. Það er afar mikilvægt fyrir mig að fá fram þessa stemningu í þinginu því að hér hafa tekið til máls fulltrúar allnokkurra flokka á Alþingi. Það er almennur samhljómur um að það sem liggur að baki fyrirspurn hv. þingmanns. Menn virðast vera sammála henni um þessar áherslur.

Landlæknir hefur vakið athygli ráðuneytisins á mikilvægi þess að hjúkrunarfræðingar og/eða ljósmæður öðlist leyfi til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum. Rök hans eru fyrst og fremst að þannig mætti auka aðgengi að þjónustu um kynheilbrigði, það eru fyrst og fremst rökin.

Í frumvarpi til breytinga á lyfjalögum, sem lagt var fram á 140. og 141. löggjafarþingi, var stefnt að þessari heimild. Þetta hefur því verið inn og út úr umræðunni. Á hinum Norðurlöndunum hafa hjúkrunarfræðingar og ljósmæður heimild til að ávísa tilteknum lyfjum þótt það sé misjafnt hvaða lyf þar um ræðir. En nám þeirrar stéttar er þó umtalsvert lengra hér á landi en almennt er á Norðurlöndunum, svo ég taki undir ábendingar hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar um það að þarna þurfi auðvitað að skoða inntak námsins og þá að viðkomandi hópar fái fullnægjandi námskeið eða undirbúning til þess að axla þessa mögulegu breytingu.

Ábendingar bæði að því er varðar lyfin — ég hef meira að segja fengið ábendingu frá nefnd um kynsjúkdóma þar sem ein af tillögum þess hóps eru hormónagetnaðarvarnir án endurgjalds fram að 20 ára aldri á Íslandi, það er sem sagt bein tillaga. Hún er til skoðunar hjá mér. Mér finnst það vera eitthvað sem við ættum að skoða, þannig að ég reyni nú að hafa eitthvert fréttaefni í þessu hressandi samtali.

En ég vil að lokum þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu og tek líka undir það sem hér kom fram hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur varðandi hjálpartækin. (Forseti hringir.) Því verður öllu saman til haga haldið við vinnu við heildarendurskoðun lyfjalaga sem nú stendur yfir í ráðuneytinu.