148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:32]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir upplífgandi andsvar. Þetta mál fer til meðferðar í nefnd. Þar munu menn væntanlega fá að heyra formleg viðbrögð stéttarfélaganna við þessari hugmynd. Ég hef aðeins skýrt forystumönnum frá því sem hér er í undirbúningi. Ég fékk svo sem ágætisviðbrögð við því. En ég vænti þess að þau félög og þau samtök muni senda inn umsagnir um þetta mál.

Sjálfur sé ég ekkert því til foráttu að mörkin séu 75 ár. Það er kannski innbyggð íhaldssemi í þann sem stendur hér að taka stutt skref og örugg, sem veldur því að þessi árafjöldi var valinn og ég seldi félögum mínum þá hugmynd.

En ég tek hins vegar undir það sem hv. þingmaður segir: Þetta frumvarp eitt og sér er einn liður í því að við örvum aldraða, sem það kjósa og geta, til að taka virkan þátt í atvinnulífinu eins lengi og þeir kjósa. Í staðinn fyrir að leggja stein í götu þeirra á þeirri vegferð eigum við að reyna að gera hana greiðari. Það er til eitthvað sem á ensku kallað er — ég bið hæstv. forseta afsökunar — „win-win“. Ég get ekki betur séð en að allir vinni á því að mál eins og þetta komi fram vegna þess að sá auður sem býr í þessu góða fólki nýtist þjóðfélaginu og því verður gert kleift að eiga innihaldsríkara líf og taka fullan þátt í þjóðfélaginu lengur en nú er.