148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:34]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni og meðflutningsmönnum hans, fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Það er ánægjulegt að heyra hversu vel hv. þm. Óli Björn Kárason tók í frumvarpið sem gefur góða von um framgang þess í framhaldinu. Það er sannarlega kominn tími til að tekin sé umræða um einmitt þetta, hvort ekki sé eðlilegt að mönnum verði gert kleift að vinna lengur ef þeir sjálfir kjósa. Það er mönnum í lófa lagið sem vinna í einkageiranum. Þeir vinna einfaldlega eins lengi og þeir sjálfir kjósa, nenna og þurfa.

Hér erum við að fjalla um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem gengur út á það að ríkisstarfsmenn geti unnið til 73 ára aldurs. Ég var einmitt að velta fyrir mér þessu aldursmarki, 73 ára aldri, og við fengum skýringar á því hérna áðan. Eftir þann aldur, á því bili, fækkar þeim sem eru úti á vinnumarkaði. Ég myndi kannski spyrja: Af hverju ekki 80 ára? Menn geta þá hætt þegar þeir vilja. Ef þeir vilja hætta 73 ára eða 75 ára þá hætta þeir, en heimildin yrði kannski ekki svona knöpp. Hv. þm. Óli Björn Kárason óttaðist það að ef markið yrði sett við 73 ára aldurinn þá yrði það óbreytt næstu áratugi. Ég hef nú ekki svona litla trú á Alþingi Íslendinga, að það sé svo erfitt að breyta lögum en hv. þingmaður er með lengri reynslu en ég, kannski talar hann af þeirri reynslu. Ég á bágt með að trúa því að þetta verði svo erfitt. Aldursmarkinu er unnt að breyta í nefndinni og þetta kemur til umræðu þar að sjálfsögðu.

Það er kannski eitt sem ég myndi vilja benda á og óttast, það er þetta með þaulsetu ríkisstarfsmanna, sérstaklega forstöðumanna. Það þarf einhvern veginn að girða fyrir það. Ef markið yrði sett við 75 ára aldur þarf að girða fyrir þaulsetuna, gera auðveldara fyrir ríkið að losa menn út. Það hefur ekki verið þannig núna og menn sitja sem fastast og þeir hafa mikil réttindi til að sitja áfram og það eru lítil ráð til að stemma stigu við því. Ég held að það þurfi að skoða það í samhengi, sérstaklega ef aldursmarkið yrði fært eitthvað hærra en það er í frumvarpinu.

Það þekkja allir dæmi þess að kraftmiklum einstaklingum sem hafa margt fram að færa úti á vinnumarkaðnum sé gert að hætta störfum allt of snemma. Það þekkja allir dæmi um það. Þeir eru oft ansi óánægðir með starfslokin, fullir starfsorku og hafa það sem skiptir mestu máli, mikla starfsreynslu. Það er kannski einn mesti galli nútímasamfélagsins hversu mjög ungu fólki er hampað á vinnumarkaði. Eldra fólk er oft afskaplega lítið eftirsótt að algerri ósekju því þar er auðvitað reynslan en einnig ýmislegt annað, oftast t.d. mikil vinnusemi og framúrskarandi samviskusemi. Eldra fólk er afskipt þegar það leitar eftir vinnu eða starfi. Það er oft hreinlega afskrifað, en það er auðvitað önnur umræða. Við verðum samt að taka þá umræðu hér hvernig við getum sem þjóðfélag komið því þannig fyrir að starfsreynsla þeirra sem eru komnir yfir miðjan aldur sé betur metin.

Þjóðin er að eldast og aldurssamsetning hennar breytist ört. Nú er svo komið að það stefnir í lýðfræðilegt vandamál. Búast má við því að sífellt færri vinnandi hendur séu að störfum. Ein orsökin er fækkandi barneignir og önnur er að meðalævilengd hefur hækkað mikið hér á landi og í öðrum vestrænum löndum. Ævilengd kvenna á Íslandi hefur hækkað frá árinu 1986 úr 80 árum upp í 82 ár árið 2000 og upp í tæp 84 ár árið 2016 eða um fjögur ár. Ævilengd karla hefur hækkað á sama tíma úr tæpum 75 árum frá 1986 upp í 78 ár árið 2000 og upp í tæplega 81 ár árið 2016 eða um sex ár. Ævilengd kvenna og karla hefur hækkað um fjögur ár annars vegar og sex ár hins vegar en frumvarpið gerir ráð fyrir hækkun um þrjú ár í starfi ríkisstarfsmanna. Ég vildi aðeins benda á þetta, að ævilengd hefur hækkað að meðaltali á þessum 30 árum um fimm ár. Lífslíkur hér á Íslandi eru með þeim hæstu í Evrópu.

Lög þau sem breyta á með þessu frumvarpi, lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eru stundum kölluð starfsmannalögin. Þau öðluðust gildi 1. júlí 1996 og eru því bráðum 22 ára. Lögin taka til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar. Lögin taka þó ekki til forseta Íslands, ráðherra eða alþingismanna. Alþingismenn geta starfað eins lengi og kjósendur sjálfir ákveða. Lögin taka ekki heldur til starfsmanna hlutafélaga og annars konar félaga einkaréttarlegs eðlis, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins né heldur starfsmanna stofnana sem að einhverju eða öllu leyti eru í eigu annarra en ríkisins, þar á meðal sjálfseignarstofnana, jafnvel þótt þær séu einvörðungu reknar fyrir framlög frá ríkinu, þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því.

Í frumvarpinu sem hér liggur frammi er gert ráð fyrir breytingu á 33. gr. laganna og 43. gr. laganna sem tekur til allra ríkisstarfsmanna, bæði embættismanna og annarra ráðinna ríkisstarfsmanna. Nú er það svo í dag að allir ríkisstarfsmenn, bæði embættismenn og aðrir starfsmenn, þurfa að láta af störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að þeir ná 70 ára aldri. Þannig er þetta í dag.

Loks hvet ég menn til að standa saman að þessu frumvarpi sem er einungis ívilnandi fyrir starfsmenn. Þeim er gefinn kostur á að vinna lengur ef starfsorka þeirra er með þeim hætti. Ég veit að margir verða ánægðir með framkomu þessa frumvarps og möguleika til að vinna lengur. Þetta eykur lífshamingju fólks eins og frummælandi nefndi. Hvað er þarfara en einmitt það? Með lögunum mun ríkisstarfsmönnum líka gefast kostur á því að auka við uppsöfnuð lífeyrisréttindi sín og fyrir fólk sem einhverra hluta vegna byrjar störf síðar á ævinni, t.d. vegna náms eða það hverfur úr öðrum störfum og byrjar hjá ríkinu síðar á ævinni, þá er þetta til bóta. Ég endurtek að þetta frumvarp er að mínu mati afskaplega þarft og hvet til upplýsandi umræðu um það.