148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:45]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Þetta er alveg þekkt í ríkisgeiranum sem ég starfaði lengi hjá, og starfa kannski enn, það er þessi þaulseta. Þetta er viðvarandi vandamál veit ég. Þessi fimm ára regla virkar ekki alveg, að mínu mati. Menn sitja næstum því eins lengi og þeir sjálfir kjósa nema þeir brjóti óskaplega mikið af sér í starfi og eru látnir fara þess vegna, sem er sjaldgæft eins og allir vita. Ríkisstarfsmenn sérstaklega, forstöðumenn og embættismenn sem eru hluti ríkisstarfsmanna, hafa afskaplega mikil réttindi í dag. Dómar ganga þeim iðulega í vil sem veldur bótaskyldu ríkisins.

En varðandi þessa fimm ára skipun, ef ég kem kannski aðeins inn á hana meðan ég hef tíma, þá er það auðvitað matsatriði. Að vera fimm ár í starfi, nýju starfi, er kannski stuttur tími en er orðinn langur tími þegar menn eru búnir að vera í kannski 20 ár og bæta við fimm árum í viðbót. Menn eru kannski ekki komnir inn í starf eftir fimm ára setu í nýju starfi, en mín reynsla segir að tími frá fimm til tíu árum sé happadrýgstur. Menn eru þá farnir að þekkja starfið og kunna á alla þræði þess, mér finnst því kannski ekki alveg rétt að hrekja menn úr starfi eftir fimm ár, ekki nema þeir hafi sérstaklega brotið eitthvað af sér. En það má alveg endurskoða þetta, að menn sem standa ekki sína plikt verði settir út fyrir.