148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú gætti örlítils misskilnings hjá honum. Ég talaði reyndar um að auglýsa hvert starf eftir fimm ár og að viðkomandi gæti þá sótt um. Ég tek alveg heils hugar undir með honum að fimm, tíu eða fimmtán ára starfstími í embættismennsku eða forstöðumennsku er náttúrlega um fljótur að líða. Menn eru þá að komast inn í starfið og reyna að gera allt vel. En ég tek alveg undir það.

Það er reyndar annað sem ekki hefur ratað í lög en ég veit að hefur alla vega verið til skoðunar í Stjórnarráði Íslands, þ.e. að maður sem ráðinn er í ákveðið ráðuneyti geti ferðast um milli ráðuneyta. Þá sé notað ákvæðið í starfsmannalögunum sem segir að hægt sé að færa starfsmenn til í starfi. En það hefur líka með starfsþróun hvers og eins að gera, að t.d. maður sem ráðinn er sem sérfræðingur, deildarstjóri eða skrifstofustjóri og skipaður í fjármálaráðuneyti, gæti alveg eins ferðast um og farið yfir í dómsmálaráðuneyti eða hvaða annað ráðuneyti sem er. Þá lítur Stjórnarráðið á sig sem einn vinnustað í staðinn fyrir mörg ráðuneyti.

Það eru svona hlutir sem hægt er að hafa í huga. Þetta gagnast starfsmönnum örugglega mjög vel og er hluti af ákveðnu starfsþróunarferli hvers og eins. Menn geta þá viðað að sér meiri og margvíslegri reynslu en ef þeir sætu á sama póstinum heila starfsævi eða í 20 ár eða eitthvað slíkt. Ég held að allt svona sem við opnum á gæti orðið til þess að bæði ríkinu og viðkomandi starfsmönnum liði betur hverjum með annan.