148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ágætisræðu í máli þessu. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hér er verið að leggja til að þeir sem starfa á vegum ríkisins geti starfað lengur en til sjötugs, en eins og lögin eru nú þurfa þeir að hætta umsvifalaust 70 ára gamlir. Hv. þingmaður fór vel yfir lög þess efnis og með hvaða hætti það gerist.

Ég vil segja það hér að ég er hlynntur þessu máli. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að ævi karla og kvenna hafi lengst að meðaltali um fimm ár, sem er vel. Fólk hefur meiri styrk fram eftir aldri og er hressara almennt en áður.

Ég sé í raun ekki neitt sem mælir gegn því að þeir haldi áfram að starfa sem hafa getu og vilja til. Allar vinnumarkaðsrannsóknir frá Hagstofunni sem við skoðum hér og eru gagnlegar til síns brúks miða við starfsaldurinn frá 16 til 74 ára. Hér er verið að leggja til 73 ár. Hv. þingmaður kom aðeins inn á árafjöldann. Ég spyr hvort hann hafi sterkar skoðanir á því hversu mörgum árum eigi að bæta við. Svo er ég í raun að kalla eftir rökum. Ég er svolítið hissa að þetta mál hafi ekki komið fram fyrr eða að mikið ákall hafi verið eftir því frá t.d. aðilum vinnumarkaðarins. Af hverju skyldi það ekki hafa verið? Hefur hv. þingmaður hefur einhver svör við því?