148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:53]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir andsvarið.

Ég er glaður yfir því að heyra að þingmaðurinn horfi jákvætt á frumvarpið, en hann spyr mig af hverju það hafi ekki komið fyrr. Ég er nú tiltölulega nýkominn inn í sali Alþingis þannig að ég veit ekki af hverju hann spyr um það. Hann er kannski að leita eftir ástæðu sem gæti leynst einhvers staðar, sem ekki sést í greinargerðinni. Mér dettur svo sem ekkert í hug af hverju, alls ekki.

En ég held að þetta frumvarp sé gott, menn auka uppsafnaðan lífeyri á þessu. Menn eru ekki neyddir til að halda áfram, geta hætt fyrr. Ég sé því ekki neitt nema ívilnandi við frumvarpið og vil endilega vita ef einhver sér eitthvað annað að á það verði þá bent, hvort það sé íþyngjandi einnig. Ég get ekki séð það.

Hvað mörgum árum á að bæta við? Þarna er verið að bæta við þremur árum, ef ég skildi spurninguna rétt, úr 70 árum í 73 ár. Ég held að það sé alveg óhætt, ef kemur í ljós að frumvarpið er einungis ívilnandi, að fara upp í 75 ár eins og hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi.