148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Af hverju hefur þessi hugmynd ekki komið fram fyrr? Ég er í sömu stöðu og hv. þingmaður, ég á ekki langa þingsetu að baki, en ekki hefur verið mjög áberandi ákall um þetta atriði. Mér finnst það skrýtið, bæði út frá því hvernig samfélagið hefur þróast og, eins og hv. þingmaður kom vel inn á í ræðu sinni, hvernig meðalævilengd hefur þróast; við höfum meiri styrk og getu, sem er vel. Þess vegna er undarlegt að þetta hafi ekki komið fram áður.

Við höfum líka orðið vör við umræðu um að samræma almenna vinnumarkaðinn og opinbera markaðinn. Það er svo sannarlega ekki samræmi þar á milli þegar kemur að þessum þætti, sem mér finnst þó einhvern veginn blasa við. Maður veltir fyrir sér af hverju frumvarp þessa efnis hafi ekki komið fram fyrr. Ég hef alla vega ekki orðið var við það. Það var ekkert annað á bak við vangaveltur mínar.

Ég velti því fyrir mér varðandi þessi ár, hvort það eigi að skoða betur til samræmis við almenna markaðinn og hvort einhver takmörk þurfi að vera á því í raun og veru. Auðvitað fer þetta mál til umfjöllunar í nefnd og umsagnir koma um það. Ég geri ráð fyrir því að aðilar vinnumarkaðarins komi með umsagnir við þetta mál. En auðvitað gætu ein rökin gegn þessu verið þau að hleypa að ungu fólki, menntafólki, sem sumt er á atvinnuleysisskrá. Þá lokast að einhverju marki fyrir þennan möguleika. Það má vera að einhver slík rök búi þarna að baki.