148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

tollar á innfluttar landbúnaðarvörur.

[15:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér kemur hv. þingmaður upp með palladóma um frammistöðu landbúnaðarráðherra á grundvelli ræðu sem flutt var við upphaf búnaðarþings sem vissulega má leggja út með ýmsum hætti. Þingmaðurinn er greinilega mjög viss í sinni sök og hefur töluvert af lausnum í farteskinu þegar hann ræðir með hvaða hætti bændur eigi að fá tiltrú á stjórnvöldum.

Ég hvet hv. þingmann til að leiða okkur fyrir sjónir hvað tæki við ef Ísland segði einhliða upp þeim samningi sem núverandi ríkisstjórn tók við og þarf að fullnusta. Hann tekur réttilega gildi 1. maí á þessu ári og gildir til þriggja ára. Ef hv. þingmaður er á þeirri skoðun að samskipti íslenskra stjórnvalda við erlend stjórnvöld ættu að vera með þeim hætti að þar réði hentisemi hverju sinni hvernig alþjóðlegar skuldbindingar væru virtar býð ég einfaldlega ekki í það stjórnarfar, þ.e. ef hv. þingmaður er að bjóða það.

Að því sögðu svara ég þeirri spurningu með því að vitaskuld standa íslensk stjórnvöld við þá samninga sem gerðir eru við erlend stjórnvöld. Annað væri ábyrgðarleysi en þar til að önnur lausn er komin í sjónmál skal ég gjarnan ræða við hv. þingmann um hvernig hann sér þetta landslag fyrir sér.