148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

tollar á innfluttar landbúnaðarvörur.

[15:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Búnaðarþing hefur ályktað eins og ég sagði um að segja þessum samningi upp og fyrir því eru gild rök. Það er ekkert að því að setjast niður með Evrópusambandinu og segja að hér séu brostnar forsendur sem þær eru vissulega, m.a. það sem ég nefndi um að Bretar munu ganga úr Evrópusambandinu.

Ég verð að segja það, herra forseti að ég veit hreinlega ekki hvað hefur komið fyrir ríkisstjórnarflokkana, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, þegar kemur að málefnum íslensks landbúnaðar. Í ályktun flokksþings Framsóknarflokksins er talað um að tryggja sanngjörn starfsskilyrði landbúnaðarins og hvað gera þeir svo? Jú, eins og venjulega segja eitt en gera annað og auka innflutning á landbúnaðarvörum til að færa íslenskum bændum sanngjörn starfsskilyrði. Sjálfstæðisflokkurinn talar síðan um að viðhalda styrk íslensks landbúnaðar, það ætlar hann að gera með því að auka innflutning á landbúnaðarvörum frá ESB.

Það eru öfugmæli í þessu öllu saman frá A til Ö og þau slá öll met. Ef þetta eru hin svokölluðu tækifæri fyrir bændur, herra forseti, þá eru þessir flokkar bara úti á túni að spila golf á meðan fjósið brennur.