148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

komugjöld.

[15:46]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. ráðherra innilega til hamingju með að vera orðin varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ég veit að hún er því starfi vaxin og óska henni velfarnaðar í því, svona innan hóflegra marka í það minnsta. [Hlátur í þingsal.]

En ég ætlaði að spyrja ráðherra út í komugjöld. Ég tek fram að ég ætla ekki að lýsa yfir óþolinmæði eða óþreyju og ekki heldur að hvetja ráðherra til dáða til að leggja þennan skatt á sem fyrst því að ég játa að mér finnst hann ekkert sérstaklega góð hugmynd. Hvað er þetta annað en skattahækkun? Það er tímanna tákn í alþjóðavæðingunni að frá og með þarnæsta föstudegi geta pólskættaðir varaþingmenn flogið í heimabæ sinn með ungversku flugfélagi. Þetta verður reyndar fimmti bærinn sem hægt er að fljúga til í Póllandi sem er mikil búbót fyrir þá fjölmörgu pólskættuðu Íslendinga sem búa á Íslandi. Þetta er ákveðið innanlandsflug fyrir marga Íslendinga.

Þessar breytingar í millilandaflugi á seinustu árum eru mjög jákvæðar og dæmi um það sem gerist þegar sérhagsmunir og einkaleyfi víkja fyrir opnum markaði og frjálsri samkeppni. Næsta sumar munu t.d. Reykvíkingar geta valið að fljúga til 87 ólíkra áfangastaða. Þetta eru ótrúleg lífsgæði.

Það er augljóst að komugjöld munu hækka flugfargjöld og draga úr þessum lífsgæðum. Þau fækka flugleggjum, flugferðum og flugfarþegum. Mig langar því að spyrja ráðherrann: Er það neikvæð afleiðing af komugjöldum í hennar huga að dýrara verði að fljúga, að flugferðum fækki eða fjölgi öllu heldur hægar? Eða er það jákvæð afleiðing? Er það kannski einmitt markmið í hennar huga að geta stýrt aðgangi að landinu með þessum hætti?