148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

boðaður niðurskurður opinberrar þjónustu.

[15:55]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Heilt yfir er um þetta að segja að á landsfund Sjálfstæðisflokksins mæta yfir þúsund manns og koma sér saman um ákveðna hugmyndafræði. Sú hugmyndafræði í mínum huga er í grunninn að við reynum að stækka kökuna og við eyðum minni tíma í það að ræða það hvernig eigi að skipta henni vegna þess að ef við horfum of mikið á það, en ekki að stækka hana, þá lendum við í erfiðleikum með að skipta henni.

Þessi prósentutala af vergri landsframleiðslu í opinber útgjöld er eitthvert markmið í ályktun. Allt annað í ályktun Sjálfstæðisflokksins gengur út á það að gera íslenskt samfélag sterkara og betra og við vitum öll að við gerum það með góðu og öflugu menntakerfi, góðu heilbrigðiskerfi, sem er opið fyrir alla, óháð efnahag.

Almennt um þetta vil ég segja að við erum að vinna að fjármálaáætlun þar sem stefna Sjálfstæðisflokksins í þessu ríkisstjórnarsamstarfi birtist. Við höfum auðvitað, á síðustu fjárlögum og erum einnig með skýr skilaboð um það í stjórnarsáttmála, boðað það að styrkja einmitt innviði samfélagsins en höfum ekki talað fyrir blóðugum niðurskurði. Það er líka stór munur á því að setja aukin útgjöld í málaflokka og verkefni sem gera Ísland sterkara og betra, en það er alveg hægt að horfa á ýmis verkefni sem eru unnin sem einhverjir aðrir geta mögulega sinnt. Það er munur á því að ræða að gera heilbrigðiskerfið sterkara, eða að allar tegundir af skriffinnsku séu inni í öllum opinberum stofnunum.