148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:03]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Herra forseti. Gregoríska tímatalið var tekið upp árið 1582. Í því er fjallað um hvernig mánuðunum er skipt og hvenær páskar skuli vera reiknaðir út. Það skal því ekki koma neinum á óvart að páska hafi borið upp á þessum tíma á þessu ári. Það átti nú að liggja fyrir með töluvert lengri fyrirvara en svo.

Maður veltir fyrir sér hvað valdi. Ekki er núverandi fjármálaráðherra svo óreyndur í starfi sínu, að hann geri sér ekki grein fyrir því verkefni sem fram undan er. Það er eitthvað annað sem hlýtur að valda því að áætlunin er ekki lögð fram á réttum tíma.

Ég myndi segja að það væri sjálfsagt af þinginu að sýna þá þann skilning að hafa hér fundi í næstu viku til að leggja fram þessa fjármálaáætlun svo ráðherrann geti brugðist við innan marka laganna. En annað finnst mér ekki koma til greina.