148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Nú reynir á forseta þingsins, hvort hann sé talsmaður eða vörslumaður löggjafarvaldsins eða hvort hann sé eingöngu fréttaritari fyrir ríkisstjórnina. Þetta er grafalvarlegt mál. Núna erum við á fyrstu skrefum með að læra á það hvernig við högum okkur samkvæmt lögum um opinber fjármál. Þetta er gríðarlega mikilvægt varðandi alla umgjörð, starfsemi og aga innan þingsins.

Þess vegna skiptir máli að forseti þingsins sýni festu gagnvart fjármálaráðuneytinu og segi: Við þurfum að fá þetta plagg inn fyrir 1. apríl. Ég vil sérstaklega draga fram að fyrir ári var einmitt reynt að koma fram með plaggið, það var lagt hérna fram til að virða lögin, virða þann aga sem lögin veita okkur í þinginu. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Þar fyrir utan vil ég beina því til hv. þm. Loga Einarssonar að það plagg var ansi fínt. Það fékk a.m.k. ekki falleinkunn flestra umsagnaraðila eins og þau plögg sem eru núna til umfjöllunar frá ríkisstjórninni innan fjárlaganefndar.