148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að hvetja virðulegan forseta eindregið til að vera með þinginu í liði og passa það hlutverk sérstaklega vel. Ég veit að það þykir aldrei fínt að tala um embætti forseta Alþingis í samhengi við ríkisstjórn þrátt fyrir að við séum alltaf með meirihlutaríkisstjórnir og að fyrir stórmerkilega tilviljun komi forsetinn alltaf úr röðum ríkisstjórnarflokkanna. Staðreyndirnar eru stundum ekkert mjög kurteisar.

Hvað sem því líður eru hérna tvö mál sem mér finnst mikilvægt að virðulegur forseti hafi í huga þegar hann nálgast ríkisstjórnina, annars vegar það sem hér hefur þegar verið fjallað um, hversu seint á að skila inn fjármálaáætlun. Enn og aftur ítreka ég hversu alvarlegt það er þingheimur fær ekki tíma til að fara yfir málin. Við vitum hvaða áhrif það hefur, þau eru neikvæð. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég tuða yfir þessu í pontu frekar en margir aðrir þingmenn.

Hitt varðar orðræðuna í kringum fyrirspurnir þingmanna til ríkisstjórnarinnar sem er kvartað um víða að séu of margar. Nei, þær eru ekki of margar. Það eru bara greinilega of litlir burðir, (Forseti hringir.) að því er virðist, til að svara þeim. Þá á að laga það. Ekki kvarta í þinginu yfir að þingið standi sig of vel þegar ríkisstjórninni tekst ekki að klára það sem henni er sagt að klára.