148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er til lítils að tala sig hásan í blaðagreinum og hér í ræðustól um að efla traust á Alþingi og stjórnmálum þegar verkin sýna, svo ekki verður um villst, annað. Dómsmálaráðherra hefur í tvígang verið dæmd í Hæstarétti fyrir að brjóta lög og nú kemur fjármála- og efnahagsráðherra og beinlínis sendir póst til þingsins þar sem hann boðar að hann ætli að fara á svig við lög.

Þá er nú til lítils, segi ég, að vera að tala um að auka traust og trúverðugleika. Lögin um opinber fjármál eru alveg skýr og þetta snýst ekki um að vera milt stjórnvald eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé talaði um að hann vildi vera, heldur að fara eftir lögunum. Ég held að við hljótum að þurfa að fara fram með góðu fordæmi á þinginu og fara eftir þeim lögum sem Alþingi setur.