148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti hlýtur að taka vel í kröfu, sjálfsagða kröfu, þingmanna um að hann komi bæði þinginu og lögunum til varnar því að ekki er vanþörf á í þessu máli. Það hefur líka komið hér fram mjög þörf áminning um mikilvægi þess að menn haldi sig við áætlun og ástæður þess að tímamörk eru á því hvenær þessi áætlun á að birtast. Hæstv. iðnaðarráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, útskýrði það fyrir okkur hér áðan að einmitt í þessari áætlun myndi birtast svarið við ráðgátunni um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætli að fara að því að auka stórkostlega ríkisútgjöld en draga verulega saman á sama tíma, að minnsta kosti miðað við landsframleiðslu.

Hæstv. ráðherra vildi reyndar gera lítið úr ályktunum Sjálfstæðisflokksins um samdrátt og fremur státa sig af því hvað Sjálfstæðisflokknum hefði tekist að ná mikilli útgjaldaaukningu milli ára, en þingið er algjörlega í myrkrinu hvað þessa stóru mynd varðar, framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar, hvort hún ætlar að auka útgjöld eða draga úr þeim eða gera hvort tveggja á sama tíma, á meðan við höfum ekki þessa töfraáætlun.