148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég held að það myndi spara mikinn tíma ef hæstv. forseti svaraði einfaldlega þingheimi mjög skýrt að hann ætli að halda uppi heiðri þingsins, löggjafarvaldsins, í þessu máli og svara fjármálaráðuneytinu þess efnis að við ætlumst til að fjármálaáætlun komi fram fyrir 1. apríl og fari að lögum. Þetta er einfalt og skýrt svar.

Það sem ég hef verulegar áhyggjur af er þetta jarm innan úr stjórnsýslunni og ráðuneytunum öllum. Eitt það skemmtilegasta við að vera ráðherra er að taka þátt í fyrirspurnum. Það heldur ráðuneytunum við efnið, það vekur athygli á ákveðnum málefnum, það eykur gott samtal og samstarf á milli þings og ráðherra og ég held að það sé heilbrigt. Nú er hins vegar verið að kvarta undan gríðarlegu álagi. Samt hófst þessi þingfundur á því að lesnar voru upp beiðnir um frestun á 15 eða 20 fyrirspurnum að hálfu ráðuneytanna. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Á meðan er verkleysið algjört hjá ríkisstjórninni.

Hvað er eiginlega verið að gera í ráðuneytunum þessa dagana? Er ekki neitt að frétta? Þess vegna bið ég hæstv. forseta að standa vel í lappirnar, við í þinginu munum standa fast við bakið á hæstv. forseta ef …

(Forseti (SJS): Forseti er staðinn upp.)

Það er nú aldeilis gott. Ég vonast til þess að hæstv. forseti fari með þessi skýru skilaboð til ráðuneytisins.