148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem aftur upp vegna þess að virðulegur forseti var beðinn um svör við þessu. Ég kem hingað upp vegna þess að mér er annt um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, mér er annt um að forseti sé forseti alls þingsins og annt um að forseti sé algjörlega skýr um það að hann muni verja Alþingi og vera í liði með Alþingi þegar kemur að einhverjum ágreiningsefnum við framkvæmdarvaldið. Ég tel bæði sjálfsagt og augljóst að þetta eigi að vera svona en mér finnst þetta því miður ekki alveg nógu skýrt.

Sem dæmi nefnir umboðsmaður Alþingis tregðu hjá hinu opinbera við að veita upplýsingar. Þess vegna eru oft sendar inn fyrirspurnir, til að fá upplýsingar. Það er t.d. hægt að minnka það álag sem lendir á framkvæmdarvaldinu með því að auka gegnsæið og hætta þessari tregðu. Það að taka upp tímaskráningu til að meta tímann sem fer í að svara þessu er fínt en þá til þess að meta þörfina á fleira starfsfólki, ekki til að meta þörfina á því að þagga niður í Alþingi eða draga úr eftirlitshlutverki þess. Sá málflutningur er óboðlegur og við verðum að hafa virðulegan forseta með okkur í liði í þeim slag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)