148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þessi verkkvíði fjármálaráðuneytisins fær mig til að halda að ég hafi verið frekar fljótur á mér um daginn þegar ég barðist hart gegn frumvarpi Pírata um að leggja niður helgidagafrið. Ég sé að það er alveg gráupplagt að gefa fjármálaráðuneytinu möguleika á að vinna á páskadag ef það verður til þess að það geti staðið við íslensk lög og komið fram málum eins og það á að gera. Ég vænti þess að við 2. umr. muni ég klóra mér aðeins í kollinum yfir þessari andstöðu minni við þá lagasetningu sem Píratar vilja koma á.

Ég fagna því líka sérstaklega að ráðuneytin á Íslandi ætla að taka upp sérstakt verkbókhald og vænti þess að fyrst þau ætla að eyða tíma og peningum í að reikna út hvaða tími og peningar fari í að svara fyrirspurnum frá þingmönnum verði tekið upp almennt verkbókhald í ráðuneytum þannig að við getum bara brotið niður og fengið upplýsingar um það bæði hér beint og frá Ríkisendurskoðun (Forseti hringir.) í hvað tími ráðuneytisstarfsmanna fer. Það væri mjög til bóta.