148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:34]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum kjörin á löggjafarsamkomuna til að setja lög sem borgararnir eiga að fara eftir, framkvæmdarvaldið og borgarar landsins. Þeir eru auðvitað skyldugir til að taka þessi lög alvarlega. Ég var sjálfur að vinna í lögreglunni og það þýddi lítið fyrir borgarana að bera fyrir sig að þeir mættu bara ekki vera að þessu þó að lögin hefðu tekið gildi og vildu fá einhvern frest. Það var ekkert hlustað á það.

Hér er hins vegar búið að boða fyrirsjáanlegt og skýrt lögbrot. Það er ekki orðið, við getum ekki sagt það, en það er búið að boða lögbrot í sölum Alþingis. Það er alvarlegt mál. Ég ætlast til þess að okkar stoð og stytta á Alþingi sem er forseti Alþingis muni sjá til þess að þetta muni ekki eiga sér stað, að þetta verði lagt fram, hvernig sem það verður gert, fyrir 1. apríl. Við erum nýbúin að heyra að hæstv. samgönguráðherra ætlar ekki að leggja fram samgönguáætlun fyrr en í haust. Það var áfall. (Forseti hringir.) Þetta er enn eitt áfallið.