148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

um fundarstjórn.

[16:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Frú forseti. Ég tel mig knúinn til að koma hingað upp og taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um vonbrigðin við litlu lífi í forseta Alþingis þegar þessi mál voru rædd hér áðan. Það var eins og einhvern neista skorti til að bregðast við óskum þingmanna um að framkvæmdarvaldinu yrði leiðbeint hressilega og hraustlega í rétta átt í þessu máli. Um er að ræða eitt stærsta mál hverrar ríkisstjórnar eftir að þessi nýju lög voru samþykkt, þ.e. fjármálaáætlun til fimm ára. Það er reyndar með ólíkindum að ríkisstjórn sem var í ekkert skárri stöðu hér fyrir nokkrum mánuðum skuli hafa náð að gera þetta á skemmri tíma en núverandi ríkisstjórn virðist ætla að gera. En mestu skiptir þó, frú forseti, að þingið taki ekki við tilkynningum frá ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins eða einhverjum öðrum þar; það er bara tilkynnt að nú verði farið á svig við lög sem nýlega voru samþykkt. Ég veit ekki betur en að akkúrat það sama ráðuneyti hafi keyrt mjög fast á um að fá þessi lög samþykkt hér á Alþingi. (Forseti hringir.)

Ég bið þig, frú forseti, vinsamlegast að beita öllu þínu afli, og einnig aðalforseta þingsins, til að ná einhverju fram í þessu máli.