148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

um fundarstjórn.

[17:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég tek undir orð þeirra þingmanna sem hér hafa tekið til máls og syrgt viðbrögð forseta við þeim umkvörtunum sem við höfum fært fram. Þetta eru mikil vonbrigði. Það er einu sinni þannig að lög um opinber fjármál setja niður hælana, marka grundvallaratriðin í umgjörðinni um opinber fjármál. Ég heyri það á tali þingmanna stjórnarmeirihlutans hér á göngunum að þeim þykir þetta heldur léttvægt, þykir það óttalegt mjálm í okkur þingmönnum minni hlutans að kvarta yfir því að þessi grundvallaratriði séu brotin. En það er einmitt málið. Grundvallaratriðin verða dálítið leiðinleg þegar þarf að virða þau. Þegar við setjum niður svona hæla, setjum niður svona dagsetningar — auðvitað er það erfitt. Það leggur á okkur þær skyldur að aga vinnubrögð okkar þannig að við getum staðið við þetta. Hér virðist viðkvæðið vera: Þetta skiptir engu máli, við þurfum ekkert að fara eftir þessu, það hentar okkur ekki að leggja þetta fram þarna, við ætlum að taka okkur (Forseti hringir.) aukadaga og við þurfum ekki einu sinni að biðja þingið um leyfi, við tilkynnum því bara með bréfi frá ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, að ráðuneytið ætli ekki að fara að lögunum. Það vantar öll grundvallaratriði í þetta mál. Það er kominn tími til að þingið og ekki síst framkvæmdarvaldið virði þau grundvallaratriði sem hér eru höfð til hliðsjónar.

(Forseti (ÞórE): Forseti vill brýna þingmenn til að virða ræðutíma. )