148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

hreinlætisaðstaða í Dyrhólaey.

245. mál
[17:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Þórarinsson) (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, þau eru athyglisverð. Mér sýnist að kostnaður hafi farið 100% fram úr áætlunum, það er náttúrlega afar bagalegt. Ég sem nefndarmaður í fjárlaganefnd verð að segja að það eru ekki góð vinnubrögð. Við horfum hér upp á aðstöðu sem mér sýnist kosta, þegar upp er staðið, yfir 100 milljónir, fyrir salernisaðstöðu. Nú veit ég svo sem að hæstv. ráðherra kom ekki að þessu verkefni — hann er nýr í embætti og ég óska honum velfarnaðar í því. En það er þannig í lögum um opinber fjármál, ég held að það sé 34. gr., að ráðherra ber að fylgjast með framgangi fjárlaga í sínum málaflokki. Ef sýnt þykir að farið er fram úr áætlunum verður ráðherra að gera grein fyrir því og meðal annars gagnvart fjárlaganefnd. Þetta er mikilvægt ákvæði í lögunum.

Varðandi staðarvalið og annað slíkt þá hef ég aðrar upplýsingar um það að heimamenn hafi gert athugasemdir. Mörgum finnst, þegar komið er þarna upp, að þetta stingi í stúf og sé hreinlega lýti í umhverfinu. Það væri gaman að fá persónulega skoðun ráðherra á því þar sem hann hefur (Forseti hringir.) mikið verið viðloðandi umhverfisvernd í sínum fyrri störfum og þekkir þennan málaflokk vel.