148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

hreinlætisaðstaða í Dyrhólaey.

245. mál
[17:20]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hvað varðar afstöðu ráðherra til staðsetningar hreinlætisaðstöðunnar og hvort þar sé um umhverfisslys að ræða, líkt og kom fram í fyrirspurninni, þá vil ég segja eftirfarandi.

Almennt finnst mér að gera þurfi ráð fyrir að ráðherra íhlutist ekki til um einstakar framkvæmdir á verndarsvæðum heldur treysti fagstofnunum sínum til þess að útfæra verkefni svo sem það sem hér er um rætt. Vissulega bagalegt að hér hefur verið farið mikið fram úr áætlunum. Ég tek algjörlega undir það.

Ég vil segja að sé það álit meiri hluta heimamanna að staðsetning hreinlætisaðstöðunnar sé umhverfisslys þá hvet ég heimamenn til að taka málið upp við Umhverfisstofnun og reyna að leita lausna á því með stofnuninni.

Ég vil segja almennt að að mínu mati þurfum við að hafa það viðmið að byggja innviði eins og bílastæði og hreinlætisaðstöðu í jaðri eða utan við náttúruperlur, líkt og gert er víða erlendis. Ég nefndi Stonehenge á Englandi sem ágætisdæmi þar um. Ég vil taka fram af þessu tilefni að ég hef í drögum að nýrri stefnumótun fyrir innviðauppbyggingu, sem vonandi verður lögð fyrir þingið núna í apríl, lagt áherslu á fagleg málefni og jafnframt að það verði þá sett fjármagn í að sinna þeim hluta þannig að uppbygging innviðanna passi sem allra best inn í þá viðkvæmu náttúru sem þeim er ætlað að vernda svo ekki verði skert það aðdráttarafl sem þeim innviðum er í raun ætlað að vernda, þ.e. náttúru Íslands.

Ég held ég ljúki máli mínu á því og þakka hv. þingmanni aftur kærlega fyrir fyrirspurnina.