148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

hnjask á atkvæðakössum.

313. mál
[17:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar er svar ráðherra við skriflegri fyrirspurn um atkvæðakassa. Spurning nr. 6 var: Hversu margir atkvæðakassar hafa brotnað, dottið í sundur, eða á annan hátt opnast á óæskilegan hátt við afhendingu, flutning eða notkun í einhverjum alþingiskosningum síðan 2013? Það mætti kannski vera nákvæmari og segja „í öllum kosningum“, en allt í lagi, það munar ekki öllu. En svarið var að minni háttar hnjask hefði orðið í fjórum tilvikum og er einu atviki lýst í svarinu.

Ég hefði áhuga á að vita af hinu atvikinu, í hverju fólst það hnjask sem vísað er til í svari ráðherra? Því þau dæmi sem ég veit um — umboðsmenn okkar urðu vitni að þeim og bókuðu í alþingiskosningunum síðast; ég varð reyndar líka vitni að því sjálfur sem umboðsmaður í öðrum kosningum — gætu ekki flokkast sem minni háttar hnjask. Ég hlakka til að fá upptalningu á því hvaða hnjask það er sem kallast í svari ráðherra minni háttar.

Ég spyr þá: Til hvaða aðgerða var gripið í kjölfarið til þess að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig? Það er einmitt dæmi sem ég hef séð sjálfur, í starfi mínu sem umboðsmaður í einum kosningum, að í seinni alþingiskosningum endurtók sama atvik sig.

Ég bíð spenntur eftir svari ráðherra og þessum lista á því hver þessi tilvik eru.