148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

samræmd próf og innritun í framhaldsskóla.

328. mál
[18:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka ráðherra fyrir skýr svör og skjót viðbrögð við þeim málum sem eru uppi í sambandi við samræmd próf. Ég man eftir því þegar ég var í skóla á sínum tíma, sem er svolítið síðan, voru samræmd próf fyrir mér sem unglingi það skelfileg að ég fór nánast á taugum. Þau fór mjög illa með mig. Þá voru þau reyndar öðruvísi eins og málshefjandi kom inn á.

Umræða hefur verið töluverð í þinginu um skólamál. Við ræddum um PISA eða lesskilning hérna í vetur. Mér fannst það góð umræða. Mig langar að spyrja ráðherrann um það sem mér og okkur í mínum flokki er hugleikið. Það er í sambandi við iðn- og tækninám þar sem ekki hefur verið um sérfjárútlát fyrir það nám og einhvern veginn hefur það alltaf setið á hakanum. Sér ráðherrann (Forseti hringir.) fyrir sér að breyting geti orðið á því í fjárlögum þannig að sú námsbraut fái sérmerkingu í framhaldinu?