148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ríkisstjórn landsins þarf að fara að skoða samfélagið á Íslandi í lengri tíma en kjörtímabilið, bæði til að marka stefnu um hvernig samfélag við viljum byggja en líka til að koma í veg fyrir vandamál sem krauma rétt handan við sjóndeildarhringinn. Í dag eru starfandi 275 ljósmæður á Íslandi, þar af eru 83 á sjötugsaldri og munu hætta störfum á næsta áratugi. Einungis 17 ljósmæður eru 35 ára eða yngri. Hvatinn til þess að sækja sér tveggja ára viðbótarmenntun til að fá starfsleyfi sem ljósmóðir, með tilheyrandi skuldasöfnun námslána, er enginn á meðan ljósmæður eru með þó nokkru lægri grunnlaun en hjúkrunarfræðingar.

Forseti. Mér þætti fróðlegt að vita hvort eitthvert annað nám á landinu innan sama starfsvettvangs hefur þær beinu afleiðingar að lækka launakjör fólks. Er ekki augljóslega einhver bjögun þarna sem þarf að leiðrétta?

Samkvæmt OECD er Ísland í þriðja sæti yfir lægstu dánartíðni nýbura. Slíkum árangri næst aðeins að viðhalda með öflugri menntun, góðri starfsaðstöðu, viðunandi launum og nægilegum fjölda ljósmæðra til að sinna nýbökuðum foreldrum og nýburum landsins.

Nú er nýliðun nánast engin í einni af mikilvægustu starfsstéttum landsins enda eru stjórnvöld ekki að gera neitt til að hvetja til þess. Þvert á móti reyndar. Þegar ljósmæður fóru í verkfall til að knýja fram viðunandi kjör stóðu þær engu að síður vaktina. Fjármálaráðherra neitaði að borga ljósmæðrum full laun fyrir vinnu sína á meðan á verkfalli stóð og er það mál á leið til Hæstaréttar.

Forseti. Ef það er ekki ætlun okkar að leggja starf ljósmæðra niður, sem ég ætla rétt að vona að sé ekki raunin, skiptir gríðarlega miklu máli að heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra vinni saman að því að tryggja heilbrigða nýliðun í röðum ljósmæðra, bæði með launakjörum þeirra á Landspítala og á heilsugæslustöðvum landsins sem og í raunhæfum greiðslum fyrir heimaþjónustu ljósmæðra sem um 90% nýbakaðra foreldra nýta sér.

Ljósmæðrafélag Íslands verður 100 ára á næsta ári. Fögnum þeim tímamótum með raunhæfri áætlun til að halda fæðingarþjónustu á Íslandi áfram í fremstu röð.