148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það er alltaf gott að ræða hana eins og hann þekkir af gamalli raun. Það vill svo til að í umræðum 25. janúar sagði ég um Landspítalann að við ættum, fremur en að rífast um það hvar spítalinn sem við erum að byggja sé staðsettur, að fara að ræða um það hvar við ætlum og hvernig við ætlum að byggja sjúkrahús 21. aldarinnar. Það er verkefni sem er örugglega fram undan á næstu 20–30 árum. Það er auðvitað þannig að við höfum frekar slæma reynslu af því, Íslendingar, að taka ekki ákvarðanir fyrr en tíminn er allur og fresta síðan ákvörðunum von úr viti. Þess vegna erum við að bíta úr skömminni varðandi Landspítalann.

Það er alveg skýrt að Sjálfstæðisflokkurinn stendur heill, og engin breyting þar á, að því að halda áfram að byggja upp Landspítalann á þeim stað sem gert er við Hringbraut, meðferðarkjarnann o.s.frv. Við segjum hins vegar og þar hlýtur hv. þingmaður að vera með okkur í liði: Við verðum að fara að huga að næstu uppbyggingu spítala vegna þess að að því mun koma, kannski fyrr en okkur grunar. Við þurfum að fara í það verkefni þannig að við vitum hvað við erum að gera og hvers konar spítala við ætlum að byggja.

Hættum nú að rífast um staðsetningu spítalans. Klárum það verkefni og snúum okkur að framtíðinni sem er annars vegar skipulag íslenskrar heilbrigðisþjónustu og hins vegar hvar og hvers konar spítala við ætlum að reisa hér eftir 20 til 25 ár, sem ég vona að mér endist aldur til að sjá rísa.