148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skýrt svar við spurningu hv. þingmanns um af hverju ekki er tekið á málefnum barna varðandi mögulegt lögheimili þeirra á tveimur stöðum er að það heyrir einfaldlega undir dómsmálaráðherra og undir barnalög. Í ræðu minni fór ég yfir það að dómsmálaráðherra er að vinna að slíku frumvarpi.

Í þessu frumvarpi er hins vegar fjallað um að koma því nýmæli á að hægt sé að skrá aðsetur. Það mun reyndar taka tíma að koma því í gagnið. Bráðabirgðaákvæði varðandi það er 2020, einu ári síðar, ef ég man rétt. Það er réttarbót frá því sem er í dag.

En frumvarp er varðar börnin viðkemur barnalögum, það heyrir undir dómsmálaráðuneytið og er þar af leiðandi ekki í þessum lögum. Ástæðan fyrir því að hér er sérstaklega talað um skipt lögheimili hjóna er einfaldlega sú að fyrir lá þingsályktun samþykkt af Alþingi, sem beint var (Forseti hringir.) til framkvæmdarvaldsins, um að koma fram með slíkar breytingar.