148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja þetta frumvarp. Ég ætla að spyrja ráðherrann tveggja spurninga, einnar í hvoru andsvari. Sú fyrri varðar frístundabyggð. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að lögheimili geti verið skráð í frístundabyggð nema ég sé að misskilja þetta mjög hrapallega. Frístundabyggð er orðið allt annað hugtak en það var fyrir kannski 20 til 30 árum, þegar hús í frístundabyggð voru fyrst og fremst notuð yfir hásumarið. Nú er orðið svo að mjög margir kjósa jafnvel að dvelja í frístundabyggð meira og minna allt árið. Í því ljósi langar mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra telji að það væri eitthvað sem mætti skoða sérstaklega í meðförum hv. allsherjar- og menntamálanefndar.