148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að við fljóta yfirferð líst mér vel á þetta mál. Það býður þó upp á ýmsa umræðu í sambandi við lögheimilisskráningu og málefni henni tengd. Í gegnum tíðina hef ég oft velt fyrir mér þessu fyrirbæri, lögheimili, á sama hátt og ég hef velt fyrir mér lögum um mannanöfn og ýmsu öðru sem yfirvöld á Íslandi hafa ákveðið að sé rosalega mikið þeirra mál og tilheyri ekki einstaklingnum sjálfum. Nú er auðvitað sá reginmunur á milli laga um mannanöfn og laga um lögheimili að í lögum um mannanöfn er fólki beinlínis meinað að heita það sem það kýs að heita á meðan ríkið hefur góðfúslega heimilað fólki það annars sjálfsagða frelsi að búa þar sem því sýnist en vill hins vegar að allir viti hvar hver og einn á heima.

Án þess að fara út í of útópíukenndar hugmyndir, að mati reyndari stjórnmálamanna, held ég að ekki sé nauðsynlegt að skrá heimili fólks í þjóðskrá til þess að þetta blessaða kerfi okkar virki, hvorki fyrir sveitarfélög eða ríkið né fyrir stofnanir. Breytingar þyrfti til þess að koma þannig fyrirkomulagi á að heimilisfang væri ekki skráð í þjóðskrá og vissulega þyrfti að beita einhverri lausn úr þeirri flóru sem við höfum í tækniframförum til að gera það mögulegt. En ég held að það sé mögulegt. Ég fullyrði að það sé mögulegt. Út frá upplýsingatæknilegu sjónarmiði er það alla vega ekki flókið mál, myndi ég segja, með þeim fyrirvara að ég þekki ekki innviði Hagstofu, Þjóðskrár Íslands og tilheyrandi stofnana nógu vel til að segja til um einhverjar flækjur þar.

Aftur á móti finnst mér þessi lögheimilisskráning alltaf lykta af því að Íslendingum virðist upp til hópa finnast ansi sjálfsagt að ríkið viti allt um alla og taki ákvarðanir út frá afskaplega persónulegum þáttum í lífi fólks. Þá komum við að efni frumvarpsins, að 2. gr. sem á að taka gildi 2020. Hún er sambærileg grein í gildandi lögum sem er 2. mgr. 1. gr. Þar er sagt að hver einstaklingur skuli hafa lögheimili þar sem hann hefur fasta búsetu. Allt í lagi, það er bara eins og það er og hefur alltaf verið, eða mjög lengi. En í 2. mgr. segir:

„Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.“

Þetta er efnislega það sama og í gildandi lögum. Þetta er ekki nýtt. En mig langar að vekja athygli á því, bara til umhugsunar, að hvert og eitt einasta atriði þarna varðar einkalíf manneskjunnar. Hvar fólk hefur bækistöð sína dagsdaglega er bara einkalíf hvers og eins. Það kemur yfirvöldum að jafnaði ekkert við hvar ég hangi yfirleitt. Það kemur yfirvöldum ekkert við hvar ég dvelst að jafnaði í tómstundum mínum. Nú er ég forritari og finnst gaman að spila tónlist. Sumt af því geri ég heima hjá mér, margt af því geri ég á kaffihúsum. Kemur það ríkinu við? Nei. Og svo er talað um heimilismuni og svefnstað þegar fólk sé ekki fjarverandi um stundarsakir — það kemur ríkinu fjárakornið ekkert við hvar ég sef.

Auðvitað er þetta svona vegna þess að þetta þarf að vera svona, vegna þess að við erum búin að ákveða, að því er virðist, að það hvar fólk sefur að jafnaði og leikur sér skuli ákvarða hvar fólk borgi útsvar eða hvaða réttindi það hafi gagnvart sveitarfélögum o.s.frv. Ég skil þau sjónarmið. Mér þykja þau málefnaleg. Það er hins vegar til lausn á þeim vanda sem krefst þess ekki að við neyðum alla til að gefa upp opinberlega hvar þeir geyma dótið sitt og sofa. Það er auðvitað með nútímatækni. Ein tæknilega einföld lausn væri sú að á island.is, eða á öðrum miðlægum vef þar sem hægt væri að nota íslykil eða því um líkt, gæti fólk haft gátt þar sem það á í samskiptum sem þurfa sannarlega að ná til hvers og eins. Sömuleiðis er hægt að skrá fólk í sveitarfélög án þess að skrá það í tiltekna götu. Það er jafnvel hægt að skrá það í tiltekinn hluta af sveitarfélagi án þess að skrá það í tiltekna götu. Sá vandi að við þurfum að vita í meginatriðum hvar fólk eigi heima upp á réttindi þess og skyldur krefst þess ekki að við gefum út til alls alheimsins, alla vega þess sem er innan nokkurra ljósára, hvar fólk eigi nákvæmlega heima og geymi dótið sitt og sofi að jafnaði. Það krefst þess ekki. Það er ekki þörf á þessu. Það var þörf á þessu en svo er ekki lengur.

Ég skil mætavel og ber virðingu fyrir því að hæstv. ráðherra vilji fara hægt í sakirnar og gera þetta varlega. En að sama skapi segi ég: Við getum alveg haldið kerfinu okkar við og tryggt réttindi og skyldur fólks og samt leyft fólki að hafa þessa hluti einkalífs síns í friði. Við bara getum það. Það er ekki einu sinni það flókið, myndi ég halda, með fyrrgreindum fyrirvara um þekkingarleysi mitt á innviðum ýmissa stofnana á Íslandi. — Tíminn flýgur þegar það er gaman.

Hvað varðar 5. gr., um lögheimili hjóna, hefði ég viljað hafa annað tækifæri til andsvara við hæstv. ráðherra vegna þess að ég hreinlega skil ekki alveg hvað 1. mgr. þýðir. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hjón eiga sama lögheimili. Hjónum er þó heimilt að skrá það hvort á sínum staðnum.“

Ég sé svolítið oft í lagatexta eitthvað sem lítur út eins og mótsögn. Það kemur fullyrðing og svo um leið og henni er lokið kemur eitthvað sem er algerlega á skjön við það sem ég var að enda við að lesa. Ég er viss um að það er einhver lagatækni þarna á bak við sem ég skil ekki en ég sem sagt skil þetta ekki. Er það að eiga sama lögheimili ekki það sama og að hafa það skráð? Á ég ekki lögheimili þar sem ég er skráður með lögheimili? Ég finn ekki útskýringu á þessu í greinargerð en ég treysti nefndinni til að fara með þetta og skýra þetta. Ég vona að hún geri það. Við erum bara ekki öll það löglærð að svona hlutir séu algerlega augljósir fyrir okkur. Við búum bara til lögin, erum ekki í því að skilja þau — er það ekki?

Mig langar einnig að fjalla um 7. gr. sem fjallar um dulið lögheimili sem er mér hjartans mál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þjóðskrá Íslands getur heimilað einstaklingi og fjölskyldu hans að fá lögheimili sitt dulið í þjóðskrá og að því verði ekki miðlað. Heimild til þess að fá heimilisfang sitt dulið í þjóðskrá gildir til eins árs í senn.“

Mér líst rosalega vel á þetta. Ég er mjög ánægður með þetta og ætla bara að segja það núna að ég kem sennilega til með að láta reyna á þetta sjálfur, bara til að athuga hvort þjóðskrá finnst mínar ástæður nógu góðar eða ekki. Mér finnst þær alveg nógu góðar persónulega. Sjáum til hvað ríkinu finnst.

Í greinargerð frumvarpsins, þar sem fjallað er um 7. gr., kemur fram, með leyfi forseta, atriði sem dregur svolítið úr þessum gleðifregnum:

„Nauðsynlegt er að í lögunum sé skýr heimild til að hafa skráningu lögheimilis dulda þegar fólk er í hættu, t.d. vegna ofsókna, hótana um meiðingar eða vegna þess að starf einstaklings er þess eðlis að hann kunni að vera í hættu. Viðkomandi þarf að óska eftir því skriflega og færa fyrir því rökstuðning að hafa dulið lögheimili.“

Mér finnst frábært að þessi heimild komi þarna inn, finnst það mjög mikilvægt. Það sem ég átta mig ekki alveg á er hvers vegna, með hliðsjón af tækniframförum, við þurfum að hafa þetta svona. Ég fullyrði að við þurfum ekkert að hafa þessar tilteknu takmarkanir. Fólk ætti alveg að geta dulið lögheimili sitt.

Í upphafi ræðu minnar fjallaði ég aðeins um nauðsyn þess að skrá heimilisfang yfir höfuð sem lögheimili, eitthvað sem ég dreg í efa með hliðsjón af tækniframförum og tækifærum sem við höfum með þeim. En hér er ég ekki að tala um það. Segjum sem svo að við finnum einhverja ofboðslega málefnalega og góða ástæðu fyrir því að við þurfum að hafa heimilisfang sem lögheimili, ekki notandanafn á island.is eða pósthólf eða netfang eða hvað það er. Þá finnst mér það samt sem áður ekki nógu gott að okkur beri skylda til að tilkynna öllum umheiminum þetta. Það er ekkert mál að fletta upp fólki. Allir Íslendingar geta t.d. flett upp lögheimili annarra Íslendinga í heimabankanum. Fullt af fyrirtækjum og stofnunum fær alls konar mismunandi tegundir af aðgangi að þjóðskrá og getur flett upp þessum heimilisföngum. Sagt er að sveitarstjórnir og ríkið þurfi nauðsynlega að hafa heimilisfang, sem dæmi vegna þess að lögreglan telji sig þurfa þess til að geta handtekið fólk o.s.frv., þar sem hægt sé að nálgast einstaklinginn í eigin persónu. Ríkisvaldið hefur eitt ástæðu til að ganga svo langt og það einungis þegar um mjög mikilvæga hagsmuni ríkisins eða almennings er að ræða eða einkahagsmuni annarra. Ég veit ekki hvers vegna stofnanir ríkisins, aðrar en kannski lögreglan, eða fyrirtæki úti í bæ, hagsmunasamtök eða stjórnmálaflokkar eða einhverjir slíkir þurfa nauðsynlega að hafa heimilisfang fólks til að hafa samband við það. Það er alveg hægt að senda póst, í tölvu eða í pósthólf eða á einhverja miðlæga skráningarsíðu sem er ekki tæknilega flókið eða dýrt úrlausnarefni.

Ef við kæmumst jafnvel að þeirri niðurstöðu að við þyrftum að hafa heimilisfang þarna finnst mér samt að víkka ætti út heimildir til þess að dylja lögheimili sitt. Mig langar að færa aðeins frekari rök fyrir þessu, sem eru reyndar að miklu leyti byggð á þeim rökstuðningi sem kemur fram í greinargerð við 7. gr. Fólk veit t.d. ekki endilega fyrir fram hvort það sé að setja sig í hættu. Ég ætla að nefna eitt tiltekið dæmi. Á internetinu góða eiga sér stað rökræður. Rökræður eru ekki endilega fallegar, eins og við þekkjum. Þær eru ekki endilega velkomnar alls staðar. Það eru alveg til umræðuefni, mjög erfið umræðuefni, sem við erum kannski ekki vön því að séu erfið hér. Ég nefni umræðuefni eins og sjálfstæði ríkja, trúarbrögð, hvort þessi trúarbrögðin eða hin séu sönn eða ekki. Umræður af þessu tagi geta gert fólk algerlega snældugalið. Það er til fólk í heiminum sem á internetinu hótar fólki með rangar skoðanir líkamsmeiðingum og dauða. Það er þannig. Sem betur fer erum við tiltölulega laus við það á Íslandi, alla vega eftir því sem ég best veit. Ég vona að það verði þannig áfram. Segjum sem svo að ég setji fram mjög óvinsælar trúarskoðanir eða trúarskoðanir sem eru kannski vinsælar en ákveðinn trúarhópur er alveg ofboðslega reiður út í mig og sér ekkert að því að senda mér morðhótanir. Hvað á ég þá að gera áður en ég ákveð að henda mér út í þá umræðu? Á ég þá að senda þjóðskrá póst og segja: Ég er að spá í að fara að rökræða um þennan tiltekna anga þessara tilteknu trúarbragða en er svolítið hræddur við að fá morðhótanir, er ekki í lagi að ég fái dulið lögheimili? Ég held að svarið yrði nei, miðað við þessi tilteknu lögskýringargögn. Auðvitað þyrfti síðan að reyna á þetta, en þetta er dæmi.

Annað snertir það að eitthvað nýtt komi fyrir í lífi manns, t.d. að maður verði stjórnmálamaður. Segjum sem svo að maður verði óvart ofboðslega óvinsæll stjórnmálamaður og fullt af fólki dytti allt í einu í hug að mótmæla heima hjá manni. Hvað myndi gerast þar? Þá væri, held ég, ansi fínt að hafa lögheimilið dulið í þjóðskrá, ég myndi styðja það heils hugar. Og bara svo ég segi það, til að sjokkera salinn alveg örugglega, þá finnst mér allt í lagi að stjórnmálamenn skrái lögheimili sitt á röngum stað til að verja einkalíf sitt. Mér finnst það sjálfsagt mál og geri engar athugasemdir við það, svo að það sé sagt í ljósi umræðunnar sem á sér stað.

En hvað ef manneskja á heima á ákveðnum stað, kann vel við sig þar og ákveður síðan að fara í stjórnmál og ætlar þá að hafa alls konar hryllilegar skoðanir? Á hún þá að hætta að hafa hryllilegar skoðanir? Á hún að flytja? Á hún þá að dylja lögheimili sitt, þegar það er þegar komið út um allt og þekkt af þeim sem hafa flett því upp? Mér finnst að fólk megi sofa þar sem það vill, geyma dótið sitt þar sem það vill og leika sér þar sem það vill án þess að segja ríkinu frá því. Mér finnst það rosalega sjálfsagt frelsi. Ég átta mig fyllilega á að það hefur ekki alltaf verið þannig vegna þess að tæknin hefur ekki alltaf gert okkur kleift að uppfylla skyldur gagnvart borgurunum og tryggja réttindi þeirra án þess að hafa þetta heimilisfang alltaf til staðar. En ég hygg að með nýtingu tækninnar sé það mögulegt. Ég met það reyndar þannig að svo stöddu að það sé einfalt.

Að því sögðu: Ég gæti stutt þetta frumvarp því að hér eru þó framsæknar hugmyndir, t.d. um lögheimili hjóna, með þeim fyrirvara að ég skil ekki málsgreinina í 5. gr. Í lögskýringargögnum er sagt berum orðum að þarna sé verið að taka tillit til hins nýja veruleika, þ.e. að við gefum okkur ekki fyrir fram að hjón hafi ákveðið að lifa tilteknu lífi sem flestir lifa heldur jafnvel sínu eigin, jafnvel eftir sínu eigin höfði, ef ríkið heimilar það góðfúslega. Er það vel að það fari í þá átt.

Ég verð hins vegar á lokasekúndunum að nefna, sem ég kannski kem í aðra ræðu til að ræða aðeins ítarlegar, skipta búsetu barna. Gefin var út skýrsla sem var lögð fram á 145. þingi um skipta búsetu barna. Ég geri ekki sömu athugasemdir og aðrir hafa komið fram með í sambandi við það. Það eru tvær leiðir í boði, annars vegar að hafa tvöfalda lögheimilisskráningu barna og hins vegar að breyta ýmsum lögum og reglugerðum á þann hátt að lögheimili barna hafi ekki þessi svakalegu áhrif á réttindi foreldra og réttindi barnsins gagnvart foreldrum. Það er önnur saga sem ég kem kannski að í seinni ræðu.

Að lokum tek ég fram að ég styð þetta góða mál og hlakka til að ganga lengra.