148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:02]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna góðri umræðu um þetta mál. Þó að það láti kannski ekki mikið yfir sér er þetta gríðarlega mikilvægt mál og löngu tímabært, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni áðan. Það er ýmislegt í þessu sem tæpa mætti á og mun örugglega koma til umræðu í nefndinni.

En mig langaði að byrja á því að taka undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni varðandi 5. gr. Það er svolítið skrýtið þegar maður les þetta svona saman. Ég er ekki löglærð frekar en hv. þingmaður, en ég get ekki skilið þetta öðruvísi en sem andstæðu, þ.e. að hjón geti annars vegar átt sama lögheimili og hins vegar verið heimilt að skrá það hvort á sínum staðnum. Rökhyggjan í þessu er svolítið skrýtin. Þetta virðist ganga þvert á móti hvort öðru.

Það sem mig langaði fyrst og fremst að koma inn á, og taka um leið undir með hv. þm. Þorsteini Víglundssyni og svo sem fleirum sem hér hafa komið upp til að ræða þetta mál, varðar lögheimili barna. Mér finnst svolítið leiðinlegt að þetta tækifæri sé ekki nýtt til þess að breyta því. Eins og ráðherra kom inn á, og kemur svo sem fram í greinargerðinni, taldi nefndin æskilegt að þetta væri skýrt og að börnum væri gert kleift að eiga í rauninni tvö lögheimili til þess að réttur foreldra og barna væri alveg skýr. Mér finnst við pinkulítið vera að missa af tækifæri þarna. Þótt það þýði smávesen fyrir stofnanir og sveitarfélög held ég að vesenið sé nú ekki meira en svo að við ættum að geta fundið út úr því.

Ég vona að nefndin taki það til athugunar og skoði hvort ekki sé ástæða til að nýta tækifærið og breyta þessu og breyta þá barnalögunum í leiðinni og leita þá til t.d. Sambands íslenskra sveitarfélaga eða sveitarfélaganna sjálfra varðandi útfærslu þess hluta sem snýr að þeim og veldur vandræðum samkvæmt greinargerðinni.

Þetta er það mikið hagsmunamál, sérstaklega fyrir börnin, að ég held að það sé þess virði að eyða smátíma í að skoða það betur, en ekki bara henda því út af borðinu af því að við nennum ekki að standa í veseninu. Stundum eru mál bara það mikilvæg að þau eru vesensins virði.