148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála.

389. mál
[16:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála. Er þar um að ræða áætlanir á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem lagðar eru fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögur.

Í ráðuneyti eru þrjú meginsvið sem leggja grunn að innviðum og þjónustu í samfélaginu, þ.e. samgöngur, fjarskipti og sveitarstjórnar- og byggðamál. Áætlanagerð hefur verið lögbundin um nokkurt skeið á flestum þessara sviða.

Áætlanir í samgöngumálum hafa kannski lengst af verið við lýði, en í maí 2002 tóku gildi lög um samgönguáætlun sem kváðu á um gerð einnar samgönguáætlunar sem tæki til allra þátta samgangna, samanber nú lög nr. 33/2008.

Þá skal gerð fjarskiptaáætlun samkvæmt lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, en í athugasemdum með frumvarpi laganna kemur fram að markmiðið hafi verið að samræma áætlanagerð innan ráðuneytisins, sem og að samræma hana við aðra áætlanagerð hins opinbera, þar með talið við Sóknaráætlun 20/20.

Í samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun skal marka langtímastefnu til 12 ára en jafnframt gera styttri áætlun til fjögurra ára. 12 ára stefnurnar skulu endurskoðaðar á fjögurra ára fresti en áætlanirnar styttri á tveggja ára fresti.

Samkvæmt ákvæðum laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, skal gera stefnumótandi byggðaáætlun til sjö ára í senn. Áætlunin skal lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera.

Í sveitarstjórnarlögum er ekki sérstaklega kveðið á um samantekna stefnumörkun ríkisins í málefnum sveitarfélaga, en ráðherra ber hins vegar að leggja fram stefnu á því sviði sem öðrum samkvæmt ákvæðum laga um opinber fjármál. Ljóst er hins vegar að stefna ríkisvaldsins í málefnum sveitarfélaganna er þegar til staðar á mörgum sviðum.

Virðulegi forseti. Ég tel afar mikilvægt að samræma þá áætlanagerð sem þegar fer fram og formgera jafnframt stefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Allir þessir málaflokkar mynda eina heild þar sem starfsemi í einum hefur áhrif á aðra.

Með því að samræma þessar stefnur og áætlanir gefst kostur á að horfa lengra en til verkefna einstakra málaflokka, móta sameiginlega framtíðarsýn og meginmarkmið og hámarka þannig árangur. Er ég þeirrar skoðunar að frumvarpið marki að þessu leyti nýja sýn á stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera.

Frumvarpið felur í sér lágmarksbreytingar sem gera þarf á lögum til að hægt sé að ná fram þessum markmiðum um samþætta og samræmda áætlanagerð. Lagt er til að í samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamálum verði gerðar sambærilegar áætlanir, þ.e. til fimm og 15 ára í senn, sem endurskoðaðar verði á þriggja ára fresti hið minnsta. Með því næst einnig samræmi við tímalengd fjármálaáætlunar og fjármálastefnu samkvæmt lögum um opinber fjármál.

Þá verður undirbúningur þessara áætlana samræmdur eins og kostur er. Þannig verði komið á fót nýjum ráðum, fjarskiptaráði og byggðamálaráði, sem annist undirbúning fjarskiptaáætlunar og byggðaáætlunar með sambærilegum hætti og samgönguráð undirbýr samgönguáætlun. Í hverju þessara ráða sitji tveir fulltrúar ráðherra, þar af annar formaður, auk fulltrúa viðkomandi fagskrifstofu ráðuneytisins og forstöðumanna viðkomandi stofnana. Að auki sitji fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í byggðamálaráði. Þá verði skipunartími ráðanna bundinn við embættistíma þess ráðherra sem þau skipar.

Í frumvarpinu er hlutverk þessara ráða tilgreint þannig að þau skuli gera tillögur að viðkomandi áætlunum til ráðherra að fengnum áherslum hans. Með því er undirstrikað að áherslur viðkomandi ráðherra skuli liggja til grundvallar vinnu þessara ráða og það sé ráðherra sem móti endanlega tillögur að þeim áætlunum sem lagðar eru fyrir Alþingi.

Það nýmæli er í frumvarpinu að stefna ríkisins í málefnum sveitarfélaga skuli formgerð í sérstakri áætlun til samræmis við aðra áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þykir rétt að þessi stefna verði tekin saman í einni formlegri áætlun til að tryggja samræmi og samhæfingu, ekki síst ef áætlun er á öðrum sviðum. Hefur Samband íslenskra sveitarfélaga lýst yfir ánægju sinni með þau áform.

Ekki er gert ráð fyrir að sérstakt ráð undirbúi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga heldur fari um undirbúninginn eftir ákvörðun ráðherra hverju sinni í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök. Helgast það af sérstöðu þessa málaflokks.

Í frumvarpinu eru almenn ákvæði um samráð við bæði helstu hagsmunaaðila og almenning sem koma í stað eldri ákvæða um tiltekið afmarkað samráð á hverju sviði fyrir sig. Er stefnt að því að samráð verði aukið frá því sem nú er við gerð þessara áætlana, en opnari ákvæði bjóða upp á að laga megi fyrirkomulag samráðsins að þörfum og áherslum á hverjum tíma.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins. Virk stefnumótun er forsenda framfara. Ég tel að með frumvarpinu séu stigin stór skref í þá átt að tryggja skýra og samhæfða stefnumörkun í þessum mikilvægu málaflokkum.

Með þeim orðum legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og til 2. umr.