148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála.

389. mál
[16:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra og áhorfendur geti hjálpað mér við að skilja þetta mál aðeins betur. Nú hefur komið fram að samgönguáætlun verður ekki lögð fram fyrr en í haust. Það eru vonbrigði, en það er nú bara eins og hæstv. ráðherra ákveður. Ég hef bara rennt lauslega í gegnum frumvarpið en er að velta fyrir mér, með þetta mál sérstaklega, hvað myndi gerast ef hæstv. ráðherra þyrfti að svara því nákvæmlega hvaða áhrif, nú segi ég reyndar nákvæmlega svolítið óvarlega, þetta kemur til með að hafa á tilteknar framkvæmdir. Það eru væntingar til staðar um ýmsar framkvæmdir. Ég nefni sem dæmi Vatnsnesveg norðan við Hvammstanga sem er algjörlega óboðlegur. Þar fara ferðamenn um og það þarf ekki nema eina mynd af honum til að sjá að hann væri hlægilegur ef það væri ekki svona agalegt að sjá hann. Annað sem mér dettur í hug er Þ-H leiðin um Teigsskóg á Vestfjörðum og ýmislegt svona.

Við stutta yfirferð á frumvarpinu átta ég mig ekki alveg á samhenginu. Ég skil þetta þannig að þetta geri yfirvöldum kleift að samþætta verkefni og skipuleggja sig betur eða eitthvað því um líkt. En mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra myndi kannski svara mér eins og óbreyttum kjósanda. Hvaða áhrif hefur þetta á leiðina í mínu nærsamfélagi?