148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála.

389. mál
[16:25]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ætli það megi ekki bara segja það á mannamáli að þetta dragi úr veseni. En tilgangurinn er að búa til samræmt verklag og ég á von á því að framkvæmdarvaldið í öðrum ráðuneytum fari kannski að horfa svolítið til þessa. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur auðvitað vegna reynslu sinnar af að leggja fram áætlanir, af áætlanagerð, kannski meiri reynslu en mörg önnur í svona vinnulagi við að vinna áætlanir.

Eins og ég held að ég hafi orðað það svo ágætlega í ræðu minni, ég ætla að reyna að finna það, í lokaorðunum, þá er virk stefnumótun forsenda framfara og því meira sem við vöndum okkur við stefnumótunina og verkáætlanirnar og tryggt er að búið sé að fara í gegnum fyrirframmótað verklag áður en við tökum ákvarðanir um einstaka framkvæmdir eða verktíma þeirra, því líklegra er að þær gangi fram með skilvirkum hætti.

Þar sem þetta hefur samsvörun við fjármálaáætlun gildir þetta auðvitað líka á því sviði og á að tryggja það að þær áætlanir sem ríkisvaldið leggur fram séu í samræmi við þá fjármálaáætlun sem er í gildi á hverjum tíma þannig að við lendum ekki í því sem við höfum stundum lent í á þinginu, að samþykkja einn daginn samgönguáætlun og svo nokkrum vikum síðar fjárlög eða fjármálaáætlun sem er í engu samræmi við þá samgönguáætlun sem þingið hefur áður samþykkt.