148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir spurninguna. Mér er ljúft og skylt að svara henni. Við Píratar urðum til beinlínis vegna þess að við sáum mikið ósamræmi milli þess sem yfirvöld vildu gera annars vegar og hins vegar þess sem yfirvöld skildu. Því er hægt að lýsa á nokkra vegu. Einn er sá að tækniframfarir þróast ofboðslega hratt, miklu hraðar en fólk nær að fylgjast með. Samfélagið þróast síðan aðeins hægar. Hratt, en samt aðeins hægar. Það tekur u.þ.b. eina kynslóð að uppgötva alls konar nýjar siðferðisreglur sem almennt þurfti ekki að pæla í áður en tæknin bauð upp á nýjar tegundir af brotum, stafrænt kynferðisofbeldi sem dæmi. Og síðan þróast yfirvöld langhægast.

Það er í sjálfu sér ekkert endilega mikið hægt að gera í því annað en að bíða eftir því að samfélagið átti sig á þeirri þróun og fari að gera ráð fyrir henni. Hætturnar leynast í því þegar yfirvöld telja sig skilja hlutina betur en þau gera. Yfirvöld sem vita að þau skilja ekki eitthvað eru þó skömminni skárri en yfirvöld sem telja sig vera með þetta allt á hreinu og byrja að innleiða einhverjar reglur án tillits til þess hvaða raunverulegu afleiðingar þær hafa. Bestu dæmin um það eru í höfundaréttarmálum. Þess vegna heitum við Píratar, vegna þess að á sínum tíma þegar þetta ofboðslega frelsi kom til, þetta upplýsingafrelsi, fylgdi því það frelsi að maður gat sent tónlist til vina sinna án þess að neinn vissi af því eða gerði neitt í því. Þetta frelsi fríkaði ákveðna bransa út, sérstaklega rétthafabransann í tónlist. Síðar meir aðra bransa líka.

Þá komu viðbrögð frá fólki sem skilur ekki hvers lags bylting var í gangi, hversu mikið frelsið var eða hversu mikilvægt það væri. Það fór að stinga upp á hlutum eins og að hlera tengingar. Það var raunverulega stungið upp á því á sínum tíma og að loka vefsetrum, og því miður eru enn þá nokkur dæmi um það í lögum sem við munum laga með tímanum.

En viðbrögðin eru þó skömminni skárri ef yfirvöld eru meðvituð um hvað þau skilja og hvað ekki. Ég held að þetta lagist meira og minna sjálfkrafa með tímanum svo lengi sem yfirvöld hafa rænu á að halda aftur af öllum sínum verstu hugmyndum, þar (Forseti hringir.) til samfélaginu hefur tekist að þroskast í takt við tæknina. En það tekur tíma.