148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Stundum finnst mér eins og við þingmenn séum ekki að lesa sömu plöggin þegar við erum að fjalla um mál af þessu tagi. Það er alveg ljóst við lestur umsagna hagsmunaaðila að þessi fjármálastefna fær fullkomna falleinkunn. Það kom fram í máli fulltrúa fjármálaráðuneytisins að það bárust um 80 ábendingar og athugasemdir við þessa stefnu. Þau orð sem hagsmunaaðilar nota um þessa stefnu eru stór. Það er talað um að hún sé ógn við stöðugleikann, óraunsæ, ábyrgðarlaus, óvarfærin, ómarkviss, óljós, ósjálfbær, óskýr, ógagnsæ, aðhaldslítil, varasöm og ótrúverðug. Þess vegna átta ég mig ekki á því af hverju meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að stefnan fari einfaldlega fram óbreytt í gegn. Hvernig stendur á því, hv. þm. Willum Þór Þórsson?