148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ekki hafi verið nein spurning fólgin í ræðu hv. þingmanns. Ég ætla nú samt sem áður, svona kurteisinnar vegna, að taka hér seinna andsvarið.

Ég les þetta þvert á móti með miklu jákvæðari gleraugum en hv. þingmaður. Mér fannst margar af umsögnunum vera mjög vandaðar. Mér fannst umfjöllun hv. fjárlaganefndar vera mjög ítarleg og við tókum alvarlega allar þær ábendingar sem komu fram t.d. hjá fjármálaráði og öllum öðrum umsagnaraðilum.

Ég verð að segja varðandi margt af því sem við, meiri hlutinn, setjum hér fram — við tökum undir þær ábendingar, utan umfjöllunarinnar um ferðaþjónustu, t.d. í áliti fjármálaráðs — met ég þannig að þær ábendingar sem komu fram muni verða til þess að þetta stefnumörkunarferli, stefna, ríkisfjármálaáætlun, fjárlagagerð, verði miklu betri þegar fram í sækir.